Skoðun

Heilsueflum Reykjavík

Hildur Björnsdóttir skrifar
Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Ef það verður ekki þú, verður það einhver sem þú þekkir. Þannig er tölfræðin.

Það er áfall að greinast með krabbamein. Áfall fyrir þann sem greinist, en ekki síður þá sem standa honum nærri. Þetta þekki ég af eigin raun. Sumarið 2016 greindist ég með hraðvaxandi eitilfrumuæxli á stærð við litla melónu – eingöngu sjö dögum eftir að yngsta barnið mitt fæddist. Ég óska engum að feta þá erfiðu þrautagöngu. Til allrar hamingju sigraði ég baráttuna en það eru ekki allir svo heppnir.

Krabbameinsfélag Íslands skorar á sveitastjórnarfólk að gefa lýðheilsu og forvörnum gegn krabbameini aukið vægi. Það er mér bæði ljúft og skylt að taka þeirri mikilvægu áskorun.

Breytingar á lifnaðarháttum síðustu áratugi hafa leitt til þess að fleiri eiga á hættu að greinast með krabbamein. Helstu áhættuþættir eru reykingar, slæmt matarræði og kyrrseta. Það er mikilvægt að sveitastjórnarfólk sýni frumkvæði í málaflokknum og beiti sér fyrir forvörnum.

Í borgarstjórn Reykjavíkur mun ég vinna markvisst að því að skapa heilsueflandi borg. Ég mun hvetja til betri nýtingar grænna svæða til hreyfingar og útivistar. Ég mun vinna að því að gera hreyfingu og hollu matarræði hærra undir höfði í leik- og grunnskólum borgarinnar. Ég mun styðja við skipulag og samgöngur sem ýta undir heilsueflingu og útivist. Ég mun beita mér fyrir áframhaldandi forvörnum gegn reykingum og öðrum skaðlegum vímugjöfum. Ég vil skapa borg sem býður okkur öllum fjölbreyttar leiðir og jöfn tækifæri til að ástunda heilbrigðan lífsstíl.

Í veikindum mínum lærði ég hve dýrmæt heilsan er okkur öllum. Ég lærði hve mikilvægt er að tryggja heilsueflandi umhverfi og forvarnir fyrir börn. Ég lærði að ekki verður fjárfest í meiri verðmætum en heilsunni – enda öllum dýrkeypt að missa hana. Setjum forvarnir í forgang og heilsueflum Reykjavík!

Höfundur skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×