Stórsöngkonan Ariana Grande og grínistinn Pete Davidson, sem opinberuðu trúlofun sína í byrjun sumars, eru sögð hafa bundið enda á samband sitt. Greint hefur verið frá þessu í fjölmiðlum vestanhafs. Hvorki Grande né Davidson hafa þó staðfest sambandsslitin.
Grande og Davidson höfðu aðeins verið par í nokkrar vikur þegar sá síðarnefndi greindi spjallþáttastjórnandanum Jimmy Fallon frá því að þau væru trúlofuð. Sögusagnir um trúlofunina höfðu farið líkt og eldur í sinu um samfélagsmiðla dagana á undan.
Sjá einnig: Svarar gagnrýnisröddum eftir að hafa gefið Ariönu Grande slökkviliðsmerki föður síns
Bandaríski slúðurmiðillinn TMZ hefur eftir heimildarmönnum sínum að parið hafi hætt saman um nýliðna helgi. Þau hafa verið iðin við að tjá ást sína á hvort öðru á samfélagsmiðlum undanfarna mánuði, auk þess sem þau hafa verið nær óaðskiljanleg á götum New York-borgar þar sem ljósmyndarar elta þau á röndum. Síðast sást til þeirra saman í síðustu viku.
Óhætt er að segja að síðustu mánuðir hafi verið Grande erfiðir. Í maí 2017 létust 22 tónleikagestir í sprengjuárás á tónleikum hennar í Manchester í Bretlandi og í síðasta mánuði lést fyrrverandi kærasti hennar og vinur, rapparinn Mac Miller, úr ofneyslu eiturlyfja. Aðdáendur Millers kenndu margir Grande um andlát hans og sögðu hana hafa anað of fljót út í samband með Davidson.
