Erlent

Barnier segir drögin koma í veg fyrir hörð landamæri á Írlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í Brexit-viðræðunum, ávarpaði fréttamenn í kvöld.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í Brexit-viðræðunum, ávarpaði fréttamenn í kvöld. Getty/Bloomberg
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í Brexit-viðræðunum, segir að samningsdrögin, sem nú hafi verið kynnt, búi þannig um hnútana að ekki þurfi að koma upp sérstöku eftirliti á landamærum Írlands og Norður-Írlands.

„Við höfum tekið afgerandi skref í þá átt að tryggja skipulagða útgöngu í mars,“ sagði Barnier í kvöld eftir að tilkynnt var að breska ríkisstjórnin hefði samþykkt samningsdrögin. Drögin telja 585 blaðsíður.

Barnier segir að með samningnum verði landamærin á Írlandi áfram eins og þau hafi verið, án sérstaks eftirlits.

Einn helsti ásteytingarsteinninn

Deilan um hvernig haga skuli málum á landamærum Írlands og Norður-Írlands hefur verið einn helsti ásteytingarsteinninn í Brexit-viðræðunum. Hefur verið talað um hið svokallaða „backstop“, áætlun sem er ætlað að tryggja að ekki komi til harðra landamæra á Írlandi.

Norður-Írland verður ekki hluti Evrópusambandsins eftir útgöngu, en Írland verður þó áfram aðili. Hefur mikið verið rætt um að friðarsamningarnir sem kenndir eru við föstudaginn langa, kunni að vera í uppnámi, yrði hörðum landamærum komið á.

Áfram hluti tollabandalagsins

Lausnin verður að Bretland verði tímabundið áfram hluti tollabandalags Evrópu og að samningsaðilar skulu á aðlögunartímabilinu, sem telur 21 mánuður frá útgöngu í lok mars næstkomandi, ná saman um viðskiptasamning sem tryggi að landamærin verði áfram opin.

Þannig virðast Bretar hafa komist hjá því að gangast við fyrri tillögu Barnier um að komið yrði á sérstökum tollalandamærum á hafsvæðinu milli Norður-Írlands og restinni af Bretlandi.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×