Lífið

Ræða hvernig það er að vera svartar á Íslandi: Íslenska forvitnin veldur því að fólk starir

Birgir Olgeirsson skrifar
Jewells Chambers og Tabitha Laker.
Jewells Chambers og Tabitha Laker. YouTube
Vinkonurnar Jewells Chambers og Tabitha Laker lýsa sinni upplifun af því að vera svartar á Íslandi. Báðar eru þær búsettar hér á landi en þær ákváðu að segja frá sinni reynslu á YouTube.

Þær byrja á að minnast á íslensku forvitnina og segja frá því að þær lendi oft í því að Íslendingar stari á þær á förnum vegi.

Tabitha, sem er frá Bretlandi, segir að þegar hún kom fyrst hingað til lands árið 2017 þá gerðist það oft.

„Fólk starir þegar það keyrir framhjá, þegar það er í strætó. Það var kona í strætisvagninum sem starði á mig á hverjum degi og ég starði til baka,“ segir Tabitha.

Hún segir flesta líta undan þegar þeir átta sig á því að þeir höfðu verið að stara á hana, aðrir eigi það til að halda áfram að stara í áttina að henni til að sýna fram á það var ekki að horfa á hana.

Sumir eigi það til að horfa á hana og brosa, sem henni finnst mun betra.

Aðrir heilsi sem henni finnst enn betra, en hún reyni þó ekki að velta sér of mikið upp úr þessu.

Ökumenn stöðva til að horfa

Jewells, sem er frá Bandaríkjunum, segir þetta augljósara á svæðum sem eru fyrir utan miðborg Reykjavíkur því þar séu færri svartir.

Hún segist hafa verið á göngu í Árbæ og þar hafi kona, sem ók framhjá henni, nánast snúið sig úr hálslið á meðan hún horfði á Jewells.

Tabitha segir ökumenn hafa stöðvað til að horfa á hana og það hafi jafnvel truflað umferð.

Jewells segist eitt sinn hafa verið í matvöruverslun þar sem lítið barn starði á hana.

„Ætli það hafi haldið að ég væri súkkulaði sem getur talað og gengið?“

 

Hefur orðið fyrir níði

Jewells segir engan hafa sagt neitt ljótt við hana en Tabitha segist hafa lent í því.

Hún var á gangi að kvöldi til með vini sínum þegar bíl var ekið framhjá þeim. Sá sem var í bílnum skrúfaði niður rúðuna og kallaði eitthvað að þeim á íslensku sem þau skildu ekki. Það var þá endurtekið á ensku.

„Þeir spurðu: Er þetta api?“ rifjar Tabitha upp.

Hún segir að hún hafi ekki látið þetta hafa of mikil áhrif á sig en Jewells bætir við að þetta sé algjör óþarfi því það þurfi ekki að minna þær á að þær séu frábrugðnar öðrum hér á landi.

Jewells segir að bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi verið mikið um kynþáttaníð. Það sé því sorglegt þegar slíkt komi fyrir á Íslandi þar sem þeim líður vel.

Tabitha segir að mögulega hafi þeir fengið eitthvað út úr því að segja eitthvað ljótt um hana. Þær minna Íslendinga á að ef þeir hafi ekkert gott að segja, þá ættu þeir að sleppa því að tala við þær.



Flestir ávarpa þær á íslensku

 

Þær ræða einnig tungumálið, sem þeim finnst erfitt viðureignar, en segja einhverja hér á landi ganga út frá því að þær búi ekki hérna og tali þar af leiðandi ekki tungumálið.

Jewells, sem býr í Mosfellsbæ, segir flesta þar ávarpa hana á íslensku en hún segist hafa upplifað það á flugvelli hér á landi að rætt var við hana á ensku þó svo að hún hefði boðið góðan daginn á íslensku.

Hún segir þetta þó undantekningu en finnst þó leiðinlegt að sumir búist við því að hún tali ekki íslensku af því hún er dökk á hörund.

Tabitha segist þó fegin þegar fólk ávarpar hana á ensku því hún sé ekki enn orðin nógu örugg með tjá sig á íslensku.

Eftir að hafa búið að Íslandi þá hafa þær lært um mikilvægi D-vítamíns vegna sólarleysis yfir vetrarmánuðina. Þær benda á að það sé mjög mikilvægt fyrir þá sem eru dökkir á hörund að taka D-vítamín ef þeir ætla að búa á Íslandi yfir vetrarmánuðina.

 

Hafa fundið fyrir að sumir hafa blæti fyrir svörtum

Þá ræða þær hvernig það getur verið einkennilegt að verða fyrir Íslendingum sem segjast vera með blæti fyrir svörtum.

Jewells segist hafa lent í því einu sinni í partíi að maður gaf sig á tal við hana. Þau spjölluðu um hitt og þetta og hann hafi endað á að segja henni að hún væri falleg. Hún þakkaði fyrir pent en þá ákvað að hann að tjá henni að hann hefði aldrei verið með svartri konu.

„Í fyrsta lagi þá er ég gift og í öðrum lagi þá ert þú ekki að fara að vera með þessari svörtu konu í fyrsta skipti,“ segir hún þegar hún rifjar þetta atvik upp.

Þær segja að þetta sé alls ekki kynþokkafullt og það sé mun betra þegar húðlitur er hreinlega ekki ræddur þegar kemur að slíku samtali.

Jewells segist ekki vera einhver hlutur fyrir aðra til að njóta, hún sé manneskja sem eigi samskipti við annað fólk.

Báðar segjast þær þó hafa upplifað það í mun meiri mæli í heimalöndum sínum.

Tabitha segist lenda mun oftar í þessu í samskiptum sínum við svarta.

Jewells segir meirihluta Íslendinga mjög opna gagnvart fólki af öðrum uppruna og þær segjast báðar mjög þakklátar fyrir það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.