Á sjötta tímanum í dag var tilkynnt að Theresa May hafi hætt við fyrirhugaðan blaðamannafund sem átti að hefjast beint eftir ríkisstjórnarfundinn.
Margir ráðherrar eru á mælendaskrá fundarins sem hefur valdið fyrrnefndum töfum enda um mikilvægt mál að ræða og margir sem vilja koma sínum skoðunum á framfæri. Stjórnmálaskýrendur í Bretlandi segja sumir hverjir að þetta sé til marks um að harðar rökræður eigi sér stað á fundinum.
Heimildir The Guardian herma að hörðustu útgöngusinnarnir í Íhaldsflokknum íhugi að leggja fram vantrauststillögu á hendur May en þeir hafa í margar vikur hvatt hana til að breyta um stefnu í Brexit málum.

„Mér virðist þetta samkomulag ætla að sameina báðar fylkingarnar, með og á móti, gegn einmitt þessu sama samkomulagi,“ segir Eiríkur. „Útgöngusinnar eru á móti þessu samkomulagi á þeirri forsendu að það haldi Bretlandi inni í tollabandalaginu. Eitthvað sem var aðalforsendan fyrir útgöngunni.“
Þeir sem voru á móti útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu eru eðli málsins samkvæmt á móti úrgöngu. Þannig gætu fylkingarinar tvær leitt saman hesta sína og mögulega fellt samkomulagið.
„Þá gerist annaðhvort af tvennu,“ segir Eiríkur. „Annaðhvort kemur fram frumvarp í þinginu um aðra atkvæðagreiðslu eða þá að Bretar fari einfaldlega út samningslausir í lok mars á næsta ári.“