Erlent

Alexa hljóðritaði samtal hjóna og sendi vinum þeirra í tölvupósti

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Raddstýrði Alexa búnaðurinn nýtur mikilla vinsælda meðal viðskiptavina Amazon
Raddstýrði Alexa búnaðurinn nýtur mikilla vinsælda meðal viðskiptavina Amazon Vísir/Getty
Talsmaður netverslunarfyrirtækisins Amazon segir ótrúlega röð tilviljana hafa valdið því að raddstýrða tækið Alexa tók upp samtal hjóna og sendi upptökuna til manns á vinalista þeirra.

Hjónin voru að ræða saman um kaup á nýju parketi á heimili sínu í Portland í Bandaríkjunum. Skömmu síðar fengu þau skilaboð frá forviða vini sínum sem sagðist hafa fengið tölvupóst með upptöku af samtalinu.

Talsmaður Amazon segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að það sem hafi líklega gerst sé að hjónin hafi sagt eitthvað orð sem hljómar líkt og Alexa. Það hafi kveikt á tækinu.

Þar næst hafi þau sagt eitthvað sem hljómar eins og „send message“ eða senda skilaboð. Eftir það hafi þau nefnt nafn vinar síns sem leiddi til þess að Alexa fletti honum upp og valdi hann sem móttakanda.

Á þeim tímapunkti mun Alexa hafa beðið um staðfestingu en vegna þess að hljóðið var lágt stillt heyrðu hjónin ekki í tækinu. Af einskærri tilviljun sagði annað þeirra já á þessum tímapunkti sem Alexa tók sem staðfestingu á að senda skilaboðin.

Talsmaðurinn segir að búnaðurinn verði uppfærður til að koma í veg fyrir að þessi ólíklega röð tilviljana endurtaki sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×