Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í dag að ekki væri hægt að útiloka möguleikann á því að stríð brjótist út milli Bandaríkjanna og Rússlands, að því er fram kemur í frétt Reuters. Þá hvatti hann Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra til að ráðast ekki í hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandi.
Stirt hefur verið á milli Rússa, sem hafa stutt Sýrlandsstjórn með hernaðarmætti sínum, og vestrænna ríkja undanfarið, ekki síst eftir efnavopnaárás í bænum Douma í Austur-Ghouta um helgina.
Vestræn ríki hafa sakað ríkisstjórn Bashars al-Assad forseta um að hafa staðið að baki henni. Því hefur ríkisstjórn Assad og Rússar harðneitað.
Sjá einnig: Trump dregur í land með árásir í Sýrlandi
„Það er í algjörum forgangi að afstýra stríði,“ sagði Nebenzia við blaðamenn í dag en gat þó ekki útilokað að stríð brytist út milli Bandaríkjanna og Rússa. Rússar hafa nú boðað til neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en þar verða ræddar mögulegar hernaðaraðgerir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands í Sýrlandi.
Breska ríkisstjórnin hefur gefið það út að grípa verði til aðgerða í Sýrlandi til að koma í veg fyrir frekari notkun efnavopna. Þá sagðist Frakklandsforseti, Emmanuel Macron, hafa sannanir fyrir því að Sýrlandsstjórn hafi beitt efnavopnum í árás á Douma.
Getur ekki útilokað að stríð brjótist út milli Bandaríkjanna og Rússlands

Tengdar fréttir

Trump dregur í land með árásir í Sýrlandi
Eftir að hafa hótað Rússum eldflaugaárásum á Twitter í gær bakkaði Bandaríkjaforseti í öðru tísti í morgun.

Allt á suðupunkti eftir efnavopnaárás
Bandaríkin og Rússland í hár saman vegna meintrar efnavopnaárásar. Donald Trump segir von á eldflaugaskotum. WHO heimtar aðgang að árásarvettvangi. Merkel harmar árangursleysi öryggisráðs SÞ. Rússneskir þingmenn munu funda með Assad Sýrlandsforseta.

May segir vísbendingar um ábyrgð Sýrlandsstjórnar á efnavopnaárás
Forsætisráðherra Bretlands segir allt benda til sektar ríkisstjórnar Bashars al-Assad forseta.