Innlent

Stjórn OR fundar ásamt forstjóranum

Birgir Olgeirsson skrifar
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur áður en fundurinn hófst í kvöld.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur áður en fundurinn hófst í kvöld. Vísir/Birgir
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kom saman til fundar í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi klukkan átta kvöld. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, situr fundinn en hann hefur óskað eftir því að stíga tímabundið til hliðar á meðan málefni OR og vinnustaðamenning verður tekin út. 

Stjórnin mun taka ákvörðun um það í kvöld hvort að hún verði við beiðni Bjarna og hver muni taka þá við af honum tímabundið. Þá mun stjórnin einnig ræða hvernig úttekt á vinnustaðamenningu Orkuveitunnar verður háttað. 

Bjarni mun sitja fundinn á meðan erindi hans er tekið fyrir en víkja síðan af fundi þegar því er lokið. Eftir að Bjarni yfirgefur fundinn mun stjórnin ræða mögulegan arftaka hans og úttekt á vinnustaðamenningu OR. 

Ólga er meðal starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur (OR), dótturfyrirtækja og víðar vegna umræðu um hegðun þriggja stjórnenda þar innanhúss. Tveir eru sakaðir um kynferðislega áreitni í starfi og sá þriðji sætir ásökunum um kynferðisbrot áður en hann hóf störf hjá Orkuveitunni.

Atburðarásin hefur verið hröð frá því að Orkuveitan sendi frá sér tilkynningu á fimmtudaginn þess efnis að Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra hjá dótturfyrirtækinu Orku náttúrunnar, hefði verið sagt upp vegna óviðeigandi hegðunar.

Stjórn Orkuveitur Reykjavíkur skipa Guðjón Viðar Guðjónsson, Hildur Björnsdóttir, Gylfi Magnússon, varaformaður, Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar, Kjartan Magnússon og Sigríður Rut Júlíusdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×