Innlent

Aldrei fleiri gist í Hallormsstaðaskógi

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Íslendingar eru um 70-90 prósent gesta á svæðinu.
Íslendingar eru um 70-90 prósent gesta á svæðinu. Vísir/getty
Aldrei hafa fleiri gist á tjaldstæðum í Hallormsstaðaskógi og í júní. Þá eru fleiri gistinætur þar í júlí en í meðalári. Íslendingar eru fjölmennasti hópurinn og höfuðborgabúar eru fleiri nú en áður. Svipaða sögu er að segja í Skaftafelli.

Mikil veðurblíða hefur einkennt sumarið á Austur-og Norðurlandi og hafa veðurþreyttir höfuðborgabúar fjölmennt á tjaldstæði á þessum landsvæðum en oft áður.  Í júní var slegið met á tjaldstæðum í Atlavík og Höfðavík í Hallormsstaðaskógi.

„Stærsti júní sem við höfum haft á tjaldsvæðinu var í ár, það voru um 4.430 gistinætur,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógavörður á Austurlandi.

Þá á hún von á því að júlí verði með stærri mánuðum sem þau hafi haft á tjaldsvæðinu. Íslendingar eru um 70-90 prósent gesta á svæðinu.

„Það er búið að vera margt fólk frá höfuðborgarsvæðinu. Gaman að fá þau í heimsókn, sumir hafa aldrei komið á Austurlandið, aðrir hafa ekki komið lengi og aðrir koma á hverju einasta ári að heimsækja okkur,“ segir Bergrún. Nokkrir gestir hafi kallað svæðið „Costa del Hallormsstaður“.

Svipaða sögu er að segja frá tjaldstæðinu í Skaftfelli en síðustu ár hafa sífellt fleiri ferðamenn heimsótt svæðiðog nú í júlí hafa að meðaltali um þrjú þúsund manns komið daglega í Skaftafellsstofu sem er upplýsingamiðstöðin á svæðinu. Þá hafa Íslendingar verið afar duglegir að koma á sama tíma.

Snævar Valsteinsson landvörður í Skaftafelli telur að Íslendingar séu fleiri nú en síðustu ár og líklega sé skýringin sú að höfuðborgabúar sæki í veðurblíðuna sem ríkt hefur á svæðinu í sumar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×