Þrír erlendir ferðamenn sem lentu í alvarlegu umferðarslysi á Suðurlandsvegi skammt frá Kirkjubæjarklaustri eru allir enn á gjörgæslu samkvæmt upplýsingum frá Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Spurður út í tildrög slyssins segir Oddur það liggja fyrir að öðrum bílnum hafi verið ekið á öfugan vegarhelming þar sem hann lenti framan á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Um tvo fólksbíla var að ræða.
Oddur segir það enn til rannsóknar hvað olli því að annar bíllinn fór yfir á annan vegarhelming og ekkert liggi fyrir í því.
Í öðrum bílnum var Tævani sem var einn á ferð, fæddur 1983. Í hinum bílnum voru tveir Bandaríkjamenn, annar fæddur 1986 og hinn fæddur árið 1991.
Slysið varð um klukkan fjögur í gær og var Suðurlandsvegur lokaður í báðar áttir í nokkra klukkutíma á meðan rannsókn á vettvangi fór fram. Engin hjáleið var svo langar raðir mynduðust.

