Umfjöllun og viðtöl: Valur - KR 79-95 │KR hafði betur í grannaslagnum

Árni Jóhannsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/bára
Í seinasta leik fjórðu umferðar Dominos deildar karla í körfubolta áttust við nágrannarnir og erkifjendurnir Valur og KR. Leikurinn fór fram í Origo höllinni að Hlíðarenda og var mjög fjörugur framan af. Bæði lið hittu ótrúlega vel í fyrri hálfleik en varnarleikurinn var ekki í fyrirrúmi kannski og voru það helst þriggja stiga körfurnar sem rötuðu ofan í og gerðu það að verkum að stigaskorið var nokkuð hátt 57-64 í hálfleik.

Í þeim seinni urðu gæðin mun verri í leiknum og kepptust liðin við að henda boltanum til hvors annars og endaði það með því að staðan var 19-16 í töpuðum boltum fyrir Val. 

KR-ingarnir náðu að stoppa smá í götin og nýta sína styrkleika í sóknarleiknum og á lokakaflanum sigldu þeir heim sigrinum 79-95.

Afhverju vann KR?

KR var með forskot nánast allan tímann en náðu ekki að klára leikinn kannski jafn fljótt og þeir vildu en Valsmenn náðu ekki að klára sprettina sína þannig að þeir jöfnuðu leikinn eða komust yfir og er það svipað vandamál og hefur einkennt leiki Valsara hingað til í vetur.

Þá græddur KR-ingar heldur betur á því að ná í 16 sóknarfráköst á móti þremur Valsmanna. Eftir sóknarfráköstin skoruðu KR-ingar 21 stig á móti tveimur og getur þetta útskýrt muninn að lokum. Baráttunni var ábótavant hjá heimamönnum eins og Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals kom inn á viðtali eftir leik.

Bestu menn vallarins?

Nýr leikmaður Vals Kendall Anthony átti skínandi leik en hann skilaði mjög góðri tvöfaldri tvennu í kvöld með 27 stig og 12 fráköst. Hann á að sjálfsögðu eftir að komast betur í takt við liðið en hann sýndi að hann ætti að geta hjálpað Val með hraða sínum og útsjónarsemi.

Hjá KR lögðu margir hönd á plóginn en upp úr stóð Jón Arnór Stefánsson að lokum en hann skoraði 22 stig í leiknum og komu sex þeirra í lok leiks þegar KR sleit sig frá að lokum. 

Tölfræði sem vakti athygli?

Eins og áður sagði skoraði KR 21 stig eftir sóknarfráköst og náðu þeir í 19 stig eftir að Valur tapaði boltanum. Þá er þetta þriðji leikurinn af fjórum sem Valsmenn hleypa andstæðingum sínum í fleiri en 93 stig. Í hinum leiknum skoraði Njarðvík 85 stig. Þetta veit ekki á gott en það er nóg eftir af mótinu til að laga þetta.

Hvað gerist næst?

Valsmenn fara suður með sjó og etja kappi við Grindavík, sem hafa átt í basli, og eygja von að ná í sinn fyrsta sigur. Það er samt erfitt að ná í sigra í Grindavík og því þurfa Valsmenn að svara kalli þjálfarans um meiri baráttu í næsta leik.

KR-ingar fá Tindastól í heimsókn og er það verðugt verkefni. Tindastóll er ósigrað þegar hingað er komið við sögu og ætti þetta að verða hörkuleikur. Þessi lið mættust í úrslitum Íslandsmótsins á seinasta tímabili og í bikarúrslitunum og ættu því að þekkjast vel.

Ingi Þór Steinþórsson: Við ætlum að njóta þess að hafa unnið í kvöld„Við hittum mjög vel í byrjun sem skapaði okkur forystu sem við náðum að hanga og því miður þegar við höfðum tækifæri á að loka leiknum þá virtist okkur fyrirmunað um að stoppa Valsmenn eða skora. Við náðu ekkert að slíta þá af okkur en það er mikið spunnið í þetta Vals lið þannig að ég er mjög ánægður með að hafa landað sigri í dag“, sagði þjálfari KR þegar hann var spurður út í það hvað hafi skila sigri hans mann í leik þeirra á móti Val fyrr í kvöld.

Það eru mikil gæði í KR liðinu þrátt fyrir miklar breytingar og gott að hafa menn eins og Jón Arnór Stefánsson og Julian Boyd til að ná í körfur í lok leikja til að loka þeim.

„Julian Boyd var að drepast í miltanu allan leikinn og það er ekki hægt að teipa það þannig að hann var ekki eins sterkur eins og við þurfum að hafa hann. Það voru þá bara aðrir sem áttu fínan leik, Emil Barja átti skínandi leik hérna og svo þegar Valsmenn minnkuðu muninn niður í sex stig þá kom gamli hundurinn og kláraði þetta. Bein út pokahorninu“, sagði Ingi Þór brosandi og átti við Jón Arnór Stefánsson.

Um byrjunina á mótinu þá sagðist Ingi Þór geta sætt sig við þrjá sigra í fyrstu fjórum leikjunum.

„Þetta er ásættanlegt, við erum ósáttir við sjálfa okkur að hafa ekki klárað leikinn í Keflavík þar sem við vorum komnir í fína stöðu en leikurinn er víst í 40 mínútur. Við ætlum ekkert að vera of góðir með okkur en við erum ánægðir með þrjá sigra og svo erum við að fara í gríðarlega stóran leik næsta föstudag þannig að við ætlum að njóta þess að hafa unnið í kvöld og undirbúa okkur vel fyrir næstu viku“.

Leikurinn sem Ingi Þór er að tala um er á móti Tindastól og var hann spurður að lokum hvað hann þyrfti að gera fyrir þann leik. Þá bæði hvað var jákvætt í kvöld og hvað þarf að laga.

„Það er jákvætt að hafa unnið. Sama sem við þurfum að gera, meiri ákafa í vörnina og á meðan við erum ekki búnir að laga það þá verður það bara sama tuggan“.

Ágúst S. Björgvinsson: Aðalatriðið að fá meiri baráttu frá öllumÞjálfari Valsmanna var að vonum svekktur með úrslitin í kvöld á móti KR og sagði að tilfinningin sem hann finndi strax eftir leik væru vonbrigði.

„Vonbrigði. Það eru vonbrigði að hafa ekki fengið meira út úr þessum leik. Við klikkum á atriðum sem við eigum ekki að klikka á eins og baráttu. KR vinnur okkur í öllum þáttum þar og við erum ekki að fara að vinna KR, þrátt fyrir miklar breytingar þá eru þetta fimmfaldir meistarar, við erum ekki bara að fara að vinna þá á hæfileikum einum og sér. Við þurfum að mæta með miklu meiri baráttu en við sýndum í kvöld“.

„Það er náttúrlega aldrei gaman að tapa en við gerðum breytingar á liðinu fyrir þennan leik og þannig vorum við eiginlega búin að núllstilla okkur. Við þurfum bara að taka einn leik í einu og hvort sem maður vinnur eða tapar þá er það bara næsti leikur sem skiptir máli. Við þurfum bara að fara að spila betur það er klárt. Það eru einfaldir hlutir sem hægt er að laga eins og baráttu. Við verðum að laga það því annars vinnum við ekki marga leiki í þessari deild“, sagði Ágúst þegar hann var spurður hvort sigurleysi liðsins væri farið að setjast á sálina á mönnum.

Eins og þjálfarinn sagði þá voru gerðar breytingar og var hann beðinn um að leggja mat á frumraun nýju mannanna hans þeirra Kendall Anthony og Will Saunders.

„Því miður sýndi Will ekki sitt rétta andlit í kvöld en hann er fínn leikmaður með fína ferilskrá og er landsliðsmaður frá Englandi. Hann er miklu betri leikmaður en hann sýndi í kvöld og þurfum við miklu meira frá honum sem dæmi. Við þurfum bara meiri baráttu frá öllu liðinu og það er aðalatriðið“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira