Innlent

Drífa Snædal forseti ASÍ fyrst kvenna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Drífa Snædal hefur verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins frá árinu 2012.
Drífa Snædal hefur verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins frá árinu 2012. Vísir/Vilhelm
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, er nýr forseti Alþýðusambands Íslands. Kosið var um nýjan forseta á þingi sambandsins nú í morgun og hófst kosning klukkan 10:45. Drífa er fyrsta konan sem er kjörin í embætti forseta ASÍ í 102 ára sögu Alþýðusambands Íslands.

Ásamt Drífu var Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls, í framboði. Drífa hlaut 192 atkvæði af 293 eða 65,8 prósent. Sverrir Mar hlaut 100 atkvæði eða 34,2 prósent. Einn skilaði auðu.

Drífa Snædal er 45 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands auk þess að vera með meistarapróf í vinnumarkaðsfræðum og vinnurétti frá Háskólanum í Lundi. Drífa hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands frá árinu 2012 en áður var hún framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf.

Ljóst er að ærin verkefni bíða Drífu en flestir kjarasamningar losna um áramótin. ASÍ er stærstu hagsmunasamtök íslensks launafólks.

Félagsmenn í ASÍ eru um 133 þúsund í fimm landssamböndum og 49 aðildarfélögum um land allt. 

Deilur innan verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi hafa harðnað síðustu mánuði og hefur mikil endurnýjun verið í forystu verkalýðsfélaga. Gylfi Arnbjörnsson hefur gegnt embættinu síðan í tíu ár, en hann tilkynnti í júní að hann myndi ekki gefa aftur kost á sér sem forseti ASÍ.

Þegar Gylfi tilkynnti að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs sagðist hann sannfærður um að ákvörðunin væri sú rétta þó hún hafi verið erfið. Við setningu þingsins á miðvikudaginn sagðist Gylfi ganga sáttur frá borði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×