Enski boltinn

Özil: Ég hlæ að gagnrýnendum mínum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Özil lætur ekki gagnrýni hafa áhrif á sig.
Özil lætur ekki gagnrýni hafa áhrif á sig. vísir/getty
Þjóðverjinn Mesut Özil, leikmaður Arsenal, er í áhugaverðu viðtali við Sky Sports í dag þar sem hann fer um víðan völl.

Özil fær ekki oft góða meðhöndlun í fjölmiðlum en hann segist hlæja að gagnrýnendum sínum.

Þeir sem helst gagnrýna Özil segja að hann sé latur og það vanti alla baráttu í hann. Segja að leikmaðurinn hreinlega nenni ekki alltaf að gefa sitt besta.

„Ég hlæ bara að þessu. Ég er búinn að vera í þessu síðan ég var 16 eða 17 ára og þetta er alltaf upp og niður. Annað hvort líkar fólki við mig eður ei,“ sagði Özil við Sky Sports.

„Ég hlusta ekki á þetta fólk. Ég hlusta bara á þjálfarann minn og fólk sem segir hlutina beint í andlitið á mér. Ég veit alveg sjálfur hvenær ég spila vel og hvenær ég spila illa. Ef fólk vill segja slæma hluti um mig bara til þess að komast í blöðin þá er mér alveg sama um það.“

Özil segist vera gríðarlegur keppnismaður og það vanti svo sannarlega ekki andann í sig.

„Ég finn alltaf hvatningu. Sérstaklega fyrir leiki. Ég vil vinna alla leiki og hata að tap. Á æfingum er ég grimmur og fúll því ég vil ekki einu sinni tapa þar,“ segir sá þýski.

„Ég er frekar rólegur karakter en ég get orðið mjög æstur á vellinum því ég vil að allt sé fullkomið hjá mér. Ég legg mig alltaf allan fram i hvert verkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×