Þetta kemur fram í frétt staðarblaðsins Pittsburgh Post-Gazette. WOW air hóf flug til Pittsburgh í júní árið 2017 og virðist hafa gert samning við flugvallastjórn Allegheny-sýslu, sem fer með forráð yfir alþjóðaflugvellinum í Pittsburgh. Í frétt Post-Gazette kemur fram að í skiptum fyrir beint flug til tveggja ára frá Íslandi til Pittsburgh hafi flugvallarstjórnin heitið því að veita flugfélaginu 800 þúsund dollara niðurgreiðslu, tæplega 100 milljónir króna, sem skipt yrði niður á samningstímann.
Þá virðist einnig hafa verið samið um að lendingargjöld WOW air fyrir hið tveggja ára tímabil myndu falla niður, stæði WOW air við það að fljúga til Pittsburgh út samningstímabilið. Samningurinn átti að renna út í júní á þessu ári.
Var flug WOW air til Pittsburgh eitt af fórnarlömbum endurskipulagningarinnar en síðasta flug WOW air frá Pittsburgh til Íslands var flogið 11. janúar síðastliðinn, að því er kemur fram í Post-Gazette.
Vilja hátt í 70 milljónir króna frá WOW
Forráðamenn flugvallastjórnarinnar í Allegheny-sýslu vilja því nú fá peningana sína aftur. Vilja þeir fá til baka 187.500 dollara, um 22 milljónir króna, sem félagið hafði þegar fengið vegna niðurgreiðslna á fluginu til og frá Pittsburgh. Þá vill flugvallastjórnin að WOW air greiði 377.922 dollara í lendingargjöld, um 45 milljónir króna, sem hefðu sem fyrr segir, fallið niður hefði flug WOW air til Pittsburgh enst út samningstímabilið.Í viðtali við Post-Gazette segir Cristina Cassotis, forstjóri flugvallastjórnarinnar, reikna með að WOW air sé farið frá Pittsburgh fyrir fullt og allt og en samskipti við forsvarsmenn WOW air hafi verið í lágmarki frá því að ákveðið var að hverfa frá flugi til flugvallarins. Þó segist hún gjarnan vilja fá WOW air aftur til flugvallarins, enda hafi flugið gengið vel.

Viðræður við Indigo standa enn yfir
Sem fyrr segir standa viðræður Indigo Partners og forráðamanna WOW air yfir. Gangi kaup Indigo Partners í WOW Air eftir mun bandaríska fjárfestingafélagið eignast 49 prósent hlut í flugfélaginu. Fjárfesting Indigo er í formi láns til tíu ára með breytirétti í hlutafé, hafi fjárfestingafélagið í hyggju að nýta sér þann rétt gæti hlutur Indigo í WOW aukist.Þá hefur WOW air náð samkomulagi við fjárfesta, sem keyptu skuldabréf í útboði fyrirtækisins í fyrra, um skilmálabreytingar á skuldabréfunum. Samkomulagið var forsenda fyrir því að fjárfesting Indigo Partners í WOW air næði fram að ganga. Skúli sagði það vera mikilvægt skref í rétta átt fyrir flugfélagið.