Lífið

Tónlistarhátíð í Hörpu í maí með helstu listamönnum þjóðarinnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frábærir listamenn koma fram í Hörpunni.
Frábærir listamenn koma fram í Hörpunni.
Helstu listamenn þjóðarinnar koma fram á tónlistarhátíð í Hörpu heila helgu undir lok maímánaðar. Hátíðin ber nafnið Klapp og verða bæði kvöldin í Eldborgarsalnum.

Þetta er í fyrsta skiptið sem sambærilegir tónleikar eru haldnir í Eldborg en miðasalan fór af stað í gær á tix.is.

„Upphaflega hugmyndin var að búa til viðburð þar sem færir tökumenn gætu tekið upp tónleika með þeim sveitum sem við störfum fyrir sem myndu nýtast sem einskonar nafnspjald til bókara hérlendis og erlendis og auðvitað skapa menningarverðmæti í leiðinni. Sú hugmynd var fljót að vinda upp á sig og erum við ótrúlega spennt yfir því að halda tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu 24. og 25. maí,“ segir Árni Hrafn Kristmundsson, tónleikahaldari og umboðsmaður.

„Það er gaman að geta gefið þessu æðislega listafólki sem við störfum fyrir kost á að spila í eins vel útbúnum sal og Eldborg er. Þar er allt tæknilega upp á tíu og möguleikarnir endalausir. Okkur hlakkar mikið til að vinna með hverjum og einum listamanni að sviðsetningunni og viljum við að tónleikarnir verði eins fjölbreyttir og atriðin eru mörg.“

Sveitirnar leiða saman hesta sína á tveimur kvöldum en hver sveit spilar í u.þ.b. 20-30 mínútur. Fyrra kvöldið er með poppaðara ívafi þar sem mörg þekktustu nöfn poppsenunnar koma fram þar sem  einna helst má nefna JóaPé x Króla, Bríet, Úlf Úlf og Daða Frey. Hljómsveitirnar eiga svo seinna kvöldið þar sem Moses Hightower, Valdimar og Warmland koma fram svo dæmi séu tekin.

„Það verður stór LED skjár á sviðinu og hvetjum við listafólkið að nýta það sem opinn striga til að skapa myndheim í kring um tónlistina. Myndefni á tónleikum er allt annað listform sem þjónar að mörgu leiti svipuðum tilgangi og tónlistarmyndbönd.“

Dagskráin á hvoru kvöldi:

Föstudagskvöldið 24. maí

JóiPé x Króli

Frid

Daði Freyr

Cell7

Bríet

GDRN

Úlfur Úlfur

Laugardagskvöldið 25. maí

Moses Hightower

Tómas Jónsson

Salka og Sólkerfið

Warmland

Valdimar

Elísabet Ormslev

iamhelgi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.