Undanúrslit Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu fara fram á fimmtudaginn kemur en báðir leikirnir verða þá spilaðir í Egilshöllinni.
Fyrst mætast Fjölnir og Fylkir klukkan 19:00 og svo spila erkifjendurnir KR og Valur klukkan 21:00. Þar ráðast því úrslitin ekki fyrr en rétt fyrir ellefu.
Leikirnir verða ekki framlengdir því ef að það verður jafnt eftir venjulegan leiktíma í leikjunum þá verður strax gripið til vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.
Úrslitaleikurinn fer svo fram mánudaginn 4. febrúar kl. 20:00 og verður hann einnig spilaður í Egilshöll.
Fjölnismenn eiga titil að verja en þeir unnu 3-2 sigur á Fylki í úrslitaleiknum í fyrra. Liðin mætast aftur núna en bara í undanúrslitaleiknum.
KR tapaði 1-0 á móti Fylki í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins í fyrra en Valsmenn komust þá ekki upp úr riðlinum. Valsmenn unnu aftur á móti Reykjavíkurmótið fyrir tveimur árum á sjálfsmarki Fjölnismanna.
KR-ingar urðu síðast Reykjavíkurmeistarar í knattspyrnu árið 2010 þegar þeir unnu mótið annað árið í röð.
KR-ingar hafa 36 sinnum orðið Reykjavíkurmeistarar í knattspyrnu eða oftast allra Reykjavikurliða. Framarar hafa unnið mótið 27 sinnum, síðast árið 2014. Valsmenn unnu Reykjavíkurmeistarartitilinn í 22. skiptið fyrir tveimur árum.
