Innlent

Spáð allt að fimmtán stiga frosti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður áfram ansi kalt á landinu.
Það verður áfram ansi kalt á landinu. Vísir/Vilhelm
Það er eindregin norðanátt í kortunum fram að helgi með éljum fyrir norðan en yfirleitt björtu veðri og talsverðu frosti sunnan heiða, einkum inn til landsins, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þannig er spáð allt að fimmtán stiga frosti í vikunni og verður kaldast inn til landsins.

Þar segir jafnframt að í dag megi reikna með ofankomu í flestum landshlutum. Él verða suðvestan- og vestan lands en samfelld snjókoma norðan og austan til.

Norðaustan áttin mun svo smám saman ná undirtökunum í dag og að endingu munu élin gefa eftir suðvestan til er líður á daginn. Hins vegar eru líkur á strekkingi eða allhvassri norðaustanátt og slæmu skyggni í snjókomu austan Öræfa og einnig norðan til á Vestfjörðum í dag.

Veðurhorfur á landinu:

Breytileg átt, víða 3-10 m/s og él eða snjókoma í flestum landshlutum. Vaxandi norðaustanátt með snjókomu við SA-ströndina austan Öræfa, 10-18 með morgninum og einnig á Vestfjörðum seinnipartinn en þá dregur jafnframt úr éljum SV-til.

Norðaustan og norðan 8-15 á morgun með éljum, en víða bjart S- og V-lands.

Frost 1 til 10 stig, en kólnandi í kvöld og á morgun, einkum inn til landsins.

Á þriðjudag:

Norðaustan 10-18 m/s og víða snjókoma eða él, hvassast nyrst á Vestfjörðum og úti við SA-ströndina, en yfirleitt léttskýjað S- og V-lands. Frost 0 til 10 stig, minnst við sjávarsíðuna.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Norðlæg átt, víða 8-15 m/s og snjókoma eða él N-til, en hvassara um tíma og meiri ofankoma seint á fimmtudag og snemma á föstudag. Lengst af léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 15 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:

Útlit fyrir hæga vinda, bjartviðri og talsvert frost, en vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa S- og V-lands um kvöldið og dregur úr frosti þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×