Íslenski boltinn

Óli Jó eftirsóttur en veit ekki hvort að hann haldi áfram að þjálfa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Jóhannesson hefur þjálfað Val síðustu fjögur tímabil.
Ólafur Jóhannesson hefur þjálfað Val síðustu fjögur tímabil. vísr/bára
Ólafur Jóhannesson, sem hefur þjálfað Val síðustu fjögur ár, gerir nú upp hug sinn hvort að hann haldi áfram í þjálfun.

Ólafur ræddi við Morgunblaðið í dag þar sem hann sagðist ekki vera búinn að ákveða hvort að hann myndi halda áfram eftir að samningur hans við Val hafi ekki verið framlengdur.

Hann stýrði liðinu til bikarmeistaratitils 2015 og 2016 og undir hans stjórn urðu Valsmenn Íslandsmeistarar 2017 og 2018.

Þeir lentu hins vegar í 6. sæti Pepsi Max-deildarinnar í ár og Valsmenn ákváðu að skipta um þjálfara.

„Ég ætla ekkert að gera hug minn upp fyrr en eftir 15. október. Það eru nokkur félög búin að hafa samband við mig en ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég ætli að halda áfram að þjálfa eða ekki,“ sagði Ólafur.

„Ég ætla að fara yfir mín mál aðeins betur og bíða og sjá til hvað gerist þegar ég kem heim. Ég er bara hugsa mín mál,“ bætti Ólafur við en hann er nú staddur í fríi.

Ólafur er einn sigursælasti þjálfari íslenskrar knattspyrnu. Hann hefur fimm sinnum stýrt liði til Íslandsmeistaratitils og það er einungis Óli Björgvin Jónsson sem hefur gert það oftar, eða sex sinnum.


Tengdar fréttir

HB staðfestir heimkomu Heimis

Færeyska félagið HB Þórshöfn hefur staðfest að Heimir Guðjónsson mun snúa aftur heim til Íslands þegar keppnistímabilinu líkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×