Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem grunaður er um að hafa skotið hálfbróður sinn til bana í norska bænum Mehamn í apríl síðastliðnum, var í síðustu viku úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Þá eru vonir bundnar við að hægt verði að rétta í málinu fyrir áramót. Þetta kemur fram á vef norska fjölmiðilsins iFinnmark en Ríkisútvarpið greindi frá fyrst íslenskra miðla.
Í frétt iFinnmark, sem birtist 7. nóvember síðastliðinn, er haft eftir Silju Arvola, upplýsingafulltrúa lögreglu í Finnmörk, að Gunnar muni sæta áfram gæsluvarðhaldi í fjórar vikur. Gunnar hefur verið í gæsluvarðhaldi vegna málsins síðan í lok apríl. Þá sé rannsókn málsins lokið af hálfu lögreglu og málið sé komið á borð saksóknara í Troms og Finnmörk.
Þá segir Torstein Hevnskjel saksóknari að vissulega hafi orðið tafir á rannsókninni en vonir séu bundnar við að réttað verði í málinu fyrir áramót. Málið sé á dagskrá héraðsdóms í Austur-Finnmörk 2. desember næstkomandi.
Gunnar er grunaður um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson hálfbróður sinn til bana í Mehamn þann 27. apríl síðastliðinn. Krufning hefur leitt það í ljós að dánarorsök Gísla Þórs var skot í lærið. Við skotið missti hann mikið blóð með þeim afleiðingum að hann lést.
Gunnar Jóhann skrifaði færslu á Facebook-síðu sína skömmu áður en hann var handtekinn og játaði þar að hafa orðið bróður sínum að bana. Hann neitaði hins vegar sök þegar hann var yfirheyrður af lögreglu í fyrsta skipti.

