Jensína var fædd 10. nóvember 1909 á Þórisstöðum við Þorskafjörð í Austur-Barðastrandarsýslu, tólfta af fimmtán börnum Andrésar Sigurðssonar bónda og Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Hún var vinnukona á Vestfjörðum en flutti til Reykjavíkur fyrir miðja síðustu öld og vann meðal annars við ræstingar. Jensína var á Hrafnistu í rúma tvo áratugi.
Fréttastofa Stöðvar 2 tók hús á Jensínu í nóvember síðastliðnum þegar 109 ára afmæli hennar var fagnað. Heimsóknina má nálgast hér að neðan en rætt var við aðstandendur Jensínu, sem segja meðal annars að hún nær alfarið unnið þjónustustörf meðan hún gat. „Hún skúraði á læknastofum, þreif heimili hjá bankastjórum og læknum. Hún var mjög dugleg og vann mikið,“ sögðu Sigurdís og Lydía, ættingjar Jensínu.
Jensína var aldrei við karlmann kennd og eignaðist hún ekki börn. Þess í stað varði hún miklum tíma með börnum systkina sinna en að sögn þeirra reyndist Jensína þeim vel.
„Rétt eins og fólkið hér á Hrafnistu segir þá er hún Jensína yndisleg kona og hefur alltaf verið. Ég get ekki sagt annað, hún hefur alltaf verið svo góð við mig,“ sögðu Sigurdís og Lydía.
Dóra Ólafsdóttir í Kópavogi er elsti núlifandi Íslendingurinn en hún varð 106 ára í júlí í fyrra. Guðríður Guðmundsdóttir er næstelst, 104 ára, og Lárus Sigfússon er í þriðja sæti og jafnframt elstur karlmanna, 104 ára.