Beatrice Dossah, mastersnemi í umhverfis- og auðindafræði við Háskóla Íslands situr ein á gólfi Listasafns Reykjavíkur og bíður eftir vini sínum sem var að ljúka við að spila á tónleikum fyrir stuttu þegar blaðamann ber að garði.
Beatrice er frá Gana í Vestur-Afríku en hún segir það magnað að fá að upplifa íslenska tónlistarsenu á Airwaves, enda þekki hún ekki marga listamenn sem komi þar fram.
„Mér finnst þetta alveg magnað, sérstaklega hjá tónlistarmanninum sem ég sá áðan, sem kallar sig Auði, hann var í mjög miklum samskiptum við áhorfendur. Hann var mjög flottur, hoppaði inn í áhorfendaskarann, það var mjög skemmtileg,“ segir hún.
„Ég ætla að sjá fleiri tónlistaratriði í kvöld. Ég þekki fæsta tónlistarmennina svo að það verður gott að hlusta á íslenska tónlistarmenn og sjá hvað það er fjölbreytt tónlist hérna.“
Þetta er fyrsta skiptið sem hún kemur á Airwaves „Ég hef aldrei upplifað þetta áður.“
„Vinur minn er trommari, hann er alltaf að gefa mér miða á tónleika svo að ég er mjög heppin,“ segir Beatrice. „Hann spilaði með Auði, hann var að tromma fyrir hann.“
Hún segir það mikil viðbrigði að búa á Íslandi enda sé umhverfið hér allt öðruvísi en í heimalandinu.
„Náttúra Íslands er gullfalleg, norðurljósin og fjöllin gera landið svo dularfullt. Náttúran er allt öðruvísi en í Gana, það er mjög kalt hérna,“ segir hún og hlær.
„Kuldinn er mjög erfiður fyrir mig, leyndarmálið er að klæðast mörgum lögum eins og ég er í núna,“ segir hún og sýnir blaðamanni ullarbolinn sem hún er í innan undir peysunni. „Eftir að ég klára námið fer ég aftur heim, þetta er bara tveggja ára nám en svo fer ég aftur heim.“
