Dómi yfir hinni 21 árs gömlu Evelyn Hernandez frá El Salvador hefur verið snúið við eftir að mál hennar var tekið upp aftur fyrir dómstólum. Hernandez hefur dvalið í 33 mánuði á bak við lás og slá eftir að hafa verið sakfelld fyrir morð en Hernandez fæddi andvana barn í apríl 2016. BBC greinir frá.
Þungunarrofslöggjöf El Salvador er ein sú strangasta sem fyrirfinnst. Þungunarrof er í öllum tilvikum ólöglegt og eiga konur á hættu tveggja til átta ára fangelsi fari þær í aðgerðina. Í sumum tilvikum, líkt og í máli Hernandez, eru konur kærður fyrir morð. Lágmarksrefsing í slíkum málum er 30 ára fangelsi.
Evelyn Hernandez segir að hún hafi skyndilega fengið mikla magaverki á heimili sínu í apríl 2016. Hernandez sem býr í sveitaumhverfi hélt því út á klósettið þar sem að lokum leið yfir hana. Eftir að hún var færð á sjúkrahús, komust læknar að því að hún hafi á klósettinu fætt barn. Eftir að lík barnsins fannst í klósettinu var hún handtekin og ákærð.
Hernandez var átján ára gömul og sagði að henni hafi verið nauðgað en hafði ekki hugmynd um að hún væri barnshafandi. Í júlí árið 2017 Hernandez dæmd sek um morð og dæmd í 30 ára fangelsi. Hæstiréttur El Salvador úrskurðaði í febrúar á þessu ári að dæma skuli aftur í málinu sökum galla í meðferð málsins.
Nú hefur dómnum verið snúið við eftir að lögfræðingar Hernandez sýndu fram á að barnið hafi látist í móðurkviði án aðkomu Hernandez. Lögfræðingur Hernandez, Bertha María Deleón, segir að glæpurinn hafi verið enginn og að hún sé að springa úr gleði yfir dómnum.
