Innlent

Kosið í dag um sameiningu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sameinað sveitarfélag yrði langstærsta sveitarfélagið á landinu landfræðilega séð.
Sameinað sveitarfélag yrði langstærsta sveitarfélagið á landinu landfræðilega séð. vísir/hafsteinn
Kosið verður um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarhrepps.

Fljótsdalshérað er nú þegar sameinað sveitarfélag Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs frá árinu 2004, og er nú fjölmennasta sveitarfélagið á Austurlandi með á 3600 íbúa. Seyðisfjarðarkaupstaður er með tæplega 700 íbúa, Djúpavogshreppur tæplega fimm hundruð og Borgarfjarðarhreppur með ríflega eitt hundrað íbúa.

Ef niðurstaða kosninga verður sameining þá verður til landfræðilega langstærsta sveitarfélag landsins með tæplega fimm þúsund íbúa, fjóra byggðarkjarna og umfangsmikið dreifbýli.

Fyrstu kjörstaðir opnuðu klukkan níu í morgun og þeir síðustu loka klukkan tíu í kvöld. Því er gert ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í kringum miðnætti.

Mikill áhugi hefur verið á kosningunum. Haldnir hafa verið nokkrir kynningarfundir fyrir íbúa og þá hefur Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs staðið fyrir skuggakosningum meðal grunn- og framhaldsskólanema þar sem afgerandi meirihluti ungmenna kvaðst fylgjandi sameiningu.

Ef samþykkt verður þá tekur við ferli við undirbúning sameiningar. Stefnt er að því að kosið verði til sveitarstjórnar næsta vor og tveimur vikum eftir það tæki sameinað sveitarfélag til starfa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×