Körfubolti

Shouse tekur skóna af hillunni og spilar með Álftanesi í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Við undirritun samningsins. Með Shouse á myndinni eru Þorgeir Blöndal og Brynjar Magnús Friðriksson.
Við undirritun samningsins. Með Shouse á myndinni eru Þorgeir Blöndal og Brynjar Magnús Friðriksson. mynd/álftanes
Justin Shouse hefur skrifað undir samning við Álftanes og mun spila með liðinu í 1. deildinni á næsta tímabili.

Shouse lagði skóna á hilluna 2017 en ætlar að taka slaginn með Álftnesingum í vetur. Álftanes vann 2. deildina á síðasta tímabili. Þjálfari liðsins er Hrafn Kristjánsson en Shouse spilaði undir hans stjórn hjá Stjörnunni og var svo aðstoðarmaður hans tímabilið 2017-18.

Shouse hefur verið á Íslandi frá árinu 2005. Hann var spilandi þjálfari hjá Drangi í eitt ár og lék svo með Snæfelli í tvö ár.

Fyrir tímabilið 2008-09 gekk Shouse í raðir Stjörnunnar. Hann lék þar í níu ár. Treyja hans, númer 12, var hengd upp í rjáfur í Ásgarði fyrr á þessu ári.

Shouse er stoðsendingahæsti leikmaður efstu deildar karla á Íslandi frá upphafi. Hann varð fjórum sinnum bikarmeistari, einu sinni með Snæfelli og þrisvar sinnum með Stjörnunni. Hann var valinn besti leikmaður efstu deildar 2012 og 2013 og besti erlendi leikmaður deildarinnar 2010. Þá stýrði hann kvennaliði Snæfells til sigurs í 1. deild tímabilið 2007-08.

Shouse fékk íslenskan ríkisborgararétt 2011. Hann lék fjóra leiki fyrir íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×