Innlent

Húsið í Fossvogi rifið

Birgir Olgeirsson skrifar
Unnið er að því að rífa húsið í Fossvogi sem brann í nótt.
Unnið er að því að rífa húsið í Fossvogi sem brann í nótt. Vísir/Vilhelm
Eiginlegu slökkvistarfi er lokið vegna brunans í yfirgefnu húsi í Fossvogi í nótt. Unnið er að því að rífa húsið og standa slökkviliðsmenn vörð á meðan ef ske kynni að eldur kæmi aftur.

Slökkviliðsmenn fengu útkall um svartan reyk sem lagði yfir Fossvog um klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú í nótt. Slökkviliðsmenn af einni stöð voru sendir á vettvang en þegar þangað var komið var allt tiltækt slökkvilið kallað út því eldurinn var mun meiri en búist var við. Var mikið bál austan megin í húsinu og einnig í skemmu þar sem var að finna mikið af munum.

Slökkvistarf var fremur strembið að sögn varðstjóra sem segir að erfitt hafi verið að komast að eldinum. Reykkafarar voru sendir inn í húsið til að ganga úr skugga um að enginn væri innandyra. Eftir skoðun reykkafara reyndist húsið mannlaust. Eldsupptök liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað en greint var frá því í morgun að ekki væri hægt að útiloka íkveikju.  

Varðstjóri á vettvangi sagði húsið yfirgefið en eitthvað af fólki hefði hafst þar við og safnað saman munum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×