Erlent

Telja að réttarhöldin yfir Cosby hafi verið óréttlát

Kjartan Kjartansson skrifar
Cosby er 82 ára gamall. Hann afplánar nú fangelsisdóm vegna kynferðisbrots.
Cosby er 82 ára gamall. Hann afplánar nú fangelsisdóm vegna kynferðisbrots. Vísir/EPA

Lögmenn Bills Cosby, bandaríska gamanleikarans, ætla að fara fram á að dómari ógildi sakfellingu hans fyrir nauðgun. Halda þeir því fram að mistök sem dómari í máli hans gerði hafi gert réttarhöldin yfir honum óréttlát.



Cosby var fundinn sekur um að hafa misnotað kynferðislega konu að nafni Andrea Constand árið 2004. Dómurinn var kveðinn upp í apríl í fyrr og var Cosby dæmdur í þriggja til tíu ára fangelsi. Fyrri réttarhöld í máli hans voru ómerkt þegar kviðdómur gat ekki komið sér saman um niðurstöðu í júní árið 2017.



Nú vilja lögmenn Cosby að dómurinn verði ógiltur. Þeir telja dómarann hafa gert mistök með því að leyfa fimm konum að bera vitni um að Cosby hafi byrlað þeim ólyfjan og misnotað líkt og Constand sakaði hann um að hafa gert, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.



Brotin sem vitnin fimm sögðust hafa orðið fyrir af hendi Cosby voru fyrnd. Fáar undantekningar eru gerðar í lögum í Pennsylvaníu, þar sem Cosby var sakfelldur, til að heimila framburð af þessu tagi. Saksóknarar segja að vitnisburðurinn hafi sýnt fram á hegðunarmynstur hjá Cosby yfir margra ára skeið.



Verjendur Cosby telja einnig að kviðdómendur hefðu ekki átt að fá að heyra upptöku af vitnisburði Cosby í öðru einkamáli þar sem hann viðurkenndi að hafa gefið konu sem hann vildi stunda kynlíf með róandi lyf á 8. áratugnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×