Síðasti leikur Jakobs á Íslandi, áður en hann hélt til Svíþjóðar í atvinnumennsku, var einmitt með KR gegn Grindavík í DHL-höllinni.
Þann 13. apríl 2009 mættust KR og Grindavík í frægum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Þá, líkt og nú, voru jafnaldrarnir Jakob, Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon í stóru hlutverki í liði KR.
DHL-höllin var troðfull þetta mánudagskvöld og stemmningin ógleymanleg. KR leiddi allan tímann en Grindavík fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn í lokasókn leiksins. En enginn Grindvíkingur skaut og sóknin rann út í sandinn. KR vann með minnsta mun, 84-83.
Jakob skoraði 22 stig í oddaleiknum fræga, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hann hitti úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum. Jakob var næststigahæstur í liði KR á eftir Jóni Arnóri sem skoraði 23 stig. Oddaleikurinn var langbesti leikur Jakobs í einvíginu gegn Grindavík.
Eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með KR gekk Jakob í raðir Sundsvall Dragons þar sem hann lék í sex ár. Hann varð sænskur meistari með liðinu 2011.
Jakob lék svo með Borås Basket í fjögur ár áður en hann ákvað að koma aftur heim í KR. Þar leikur hann m.a. með bróður sínum, Matthíasi Orra, sem kom frá ÍR í sumar.
Leikur KR og Grindavíkur hefst klukkan 20:15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Að honum loknum verður svo 1. umferð Domino's deildar karla gerð upp í Domino's Körfuboltakvöldi.