„Ég get ekki tjáð mig um það,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, inntur eftir því hvort einhverjar viðræður hafi átt sér stað milli RÚV og EBU, Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, um gestgjafahlutverk Íslands í tilfelli Ástralíusigurs. Hann staðfestir hvorki umræddan orðróm né vísar honum á bug.
Sjá einnig: Afhentu áströlsku söngkonunni heiðurssleggju Hatara
Heimildir fréttastofu herma að nú sé hvíslað um mögulega aðkomu Íslands að keppninni ef Ástralía vinnur. Orðrómurinn fari nokkuð hátt úti í Tel Aviv en íslenski og ástralski hópurinn gista þar á sama hóteli. Þá hefur farið afar vel á með Hataramönnum, fulltrúum Íslands, og Kate Miller Heidke, sem syngur ástralska framlagið, í keppninni.
Horfðu til Þýskalands og Bretlands
Ástralía tekur þátt í Eurovision í fimmta sinn í ár en landið tók fyrst þátt árið 2015 og hefur vegnað afar vel í keppninni síðan þá. Ástralskt framlag hefur þrisvar hafnað í efstu tíu sætunum á fjórum árum, þar af einu sinni í öðru sæti.Í þátttökusamningnum er þó kveðið á um að Ástralía megi ekki halda keppnina líkt og hefð er fyrir að vinningsþjóðin geri. Fljótlega eftir að tilkynnt var um þátttöku Ástralíu gaf EBU það út að einkum yrði horft til Þýskalands og Bretlands ef Ástralía ynni keppnina.
Jon Ola búinn að leggja blessun sína yfir húsakostinn
Ljóst þykir að Ástralía sé líkleg til stórræða í ár en þegar þetta er ritað er landinu spáð öðru sæti í keppninni. Flestir veðja þó enn á Hollendinginn Duncan Laurence og lag hans, Arcade. Þannig bendir margt til þess að Eurovision verði haldin í Hollandi árið 2020 og að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af skipulagningu keppninnar á næsta ári.
Þó að Magnús Geir geti ekki tjáð sig um mögulega aðkomu RÚV að Ástralíusigri segist hann gríðarlega spenntur fyrir keppninni í kvöld og stoltur af Höturum. Hann treystir sér þó ekki til þess að spá nákvæmlega fyrir um gengi sveitarinnar í kvöld.
„Hatrið mun auðvitað sigra, en nákvæmlega í hvaða sæti þori ég ekki nákvæmlega að segja til um.“