Mannfjölgunin er í borgum
Hvað vitum við meira? Jú, í nýlegri skýrslu norrænu rannsóknarmiðstöðvarinnar Nordregio kemur fram að síðustu 20 árin hefur nánast öll mannfjölgun, eða 97%, átt sér stað á 30 stærstu borgarsvæðum Norðurlandanna. Til fróðleiks má geta þess að höfuðborgarsvæðið okkar er 11. stærsta norræna borgin. Innflytjendur eiga sinn þátt í þessari öru fjölgun í borgunum, en margt fólk kemur líka frá minni plássum á landsbyggðinni. Norræna strjálbýlið glímir við þann vanda að unga fólkið streymir inn í borgirnar og aðliggjandi svæði. Ekkert bendir til að þróunin verði öðruvísi næstu tvo til þrjá áratugina enda gera borgaryfirvöld í Ósló, Stokkhólmi og Helsinki ráð fyrir því í sínum skipulagsáætlunum.Hlutfallsleg fjölgun í þessum þremur borgum er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Í skipulagsáætlunum er gert ráð fyrir að fjölgunin eigi sér að miklu leyti stað innan núverandi byggðarmarka og fyrst og fremst í gisnari hverfum borganna, á úr sér gengnum iðnaðarsvæðum, hafnarsvæðum, veghelgunarsvæðum og flennistórum vannýttum bílastæðum. Í Helsinki svo dæmi sé tekið er unnið eftir skipulagsáætlun sem heitir Vision 2050. Þar sett fram landnotkunarstefna til framtíðar og áhersla lögð á þéttriðið net almenningssamgangna, eflingu miðborgarsvæðisins og styrkingu borgarinnar í alþjóðlegri samkeppni um fólk, fjármagn og verðmætasköpun.
Það er grundvallaratriði í þessum skipulagsáætlunum að ekki er gert ráð fyrir að bílaumferð aukist í sama hlutfalli og fólkinu fjölgar. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri bíla.
Takmarkað göturými
Hvernig verður takmarkað göturýmið í borgunum nýtt sem best? Útreikningar verkfræðinga sýna að einkabílaumferðin nýtir göturýmið illa. Skipulagsyfirvöld í Stokkhólmi hafa tekið saman stefnu sem segir til um hvernig beri að forgangsraða í þessu takmarkaða rými. Forgangsröðin myndar eins konar pýramída þar sem fararmátar sem taka minnst pláss eru á toppnum og þeir fararmátar sem taka mest pláss á botninum. Því skal forgangsraða gangandi og hjólandi fyrst, á eftir þeim almenningssamgöngum, síðan vöruflutningum og leigubílum og síðastur í röðinni er einkabíllinn. Þetta er útfært þannig að gangstéttir og hjólastígar breikka á kostnað akreina og bílastæða, forgangsreinar eru lagðar fyrir strætisvagna, sérstakur miðborgartollur er innheimtur af þeim sem keyra á einkabílum inn í miðborgina.Svipaða sögu er að segja frá Ósló. Í dag trúir maður því varla að í kringum ráðhúsið í borginni, sem er einstök bygging, hafi fyrir örfáum árum verið linnulaus bílaumferð og að hraðbraut skorið miðborgina frá höfninni.
Sömu skipulagsstefnu og tekin hefur verið í höfuðborgum hinna Norðurlandanna er fylgt í skipulagsáætlunum höfuðborgarsvæðisins. Búsetuþróunin hefur verið svipuð á Íslandi og á Norðurlöndunum. Við erum á sömu leið inn í framtíðina. Norrænu höfuðborgirnar raða sér alltaf í efstu sætin á alþjóðlegum listum yfir lífvænlegustu borgir í heimi. Þar eigum við heima.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.