Það stóð tæpt að síðustu tveir bardagarnir á kvöldinu stóra hjá UFC í New York um síðustu helgi hefðu farið fram. Þökk sé Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Öryggissveit Trump ku hafa farið mikinn í Madison Square Garden og þurft mikið pláss. Hún ætlaði að láta loka skrifstofa lyfjaeftirlitsins þar sem bardagakapparnir þurfa að fara í gegn áður en þeir fara í búrið.
„Ég átti eftir að fara í læknisskoðun á skrifstofunni en sérsveit forsetans ætlaði að loka henni fyrir hann. Þeir reyndu að henda mér út,“ sagði Darren Till sem var í næstsíðasta bardaga kvöldsins.
„Þeir voru að segja við mig að ég gæti ekki barist en ég neitaði að yfirgefa herbergið.“
Hann neyddist þó til þess að yfirgefa herbergið á endanum en blessunarlega tókst að redda málunum. Læknirinn hitti Till og kappana í síðustu bardögunum í sínum búningsklefum en mikil ringulreið og óvissa er sögð hafa myndast baksviðs.
