Skoðun

Kapp­hlaupið á norður­slóðir

Sigríður María Egilsdóttir skrifar
Heimurinn beinir nú ítrekað sjónum sínum að norðurslóðum. Krassandi og jafnvel hlægilegar fyrirsagnir á borð við að Bandaríkjaforseti vilji kaupa Grænland og að Kína lýsi því yfir að vera nærri-því-norðurslóðaþjóð, gefa vísbendingar um mun stærri áform þessara viðskiptastórvelda. Nýtt heimskapphlaup er hafið - kapphlaupið á norðurslóðirnar. 

En hvað felur það í sér? Og hvaða þýðingu hefur það fyrir litla þjóð í Atlantshafinu?

Norðurslóðir eru, líkt og forseti Kína hefur sjálfur komist að orði, stútfullar af viðskiptalegum, pólitískum og hernaðarlegum tækifærum. Ástæður þessa eru nokkrar: Fyrir það fyrsta er að finna heilmiklar auðlindir á svæðinu. Talið er að þar fyrirfinnist verulegur hluti óuppgötvaðra olíu- og gasauðlinda heims, ásamt allskyns verðmætra málma og fiskveiðiauðlinda. Þá eru töluverðir rannsóknarhagsmunir fólgnir í geim- og segulsviðsrannsóknum á svæðinu. Að lokum, og einna helst, er ljóst að loftslagsbreytingar munu gera nýjar siglingarleiðir mögulegar. Bráðnandi ísbreiður gera harðgerum skipum kleift að ferðast um áður ófærar siglingarleiðir. Leiðir sem geta stytt flutningstíma milli Evrópu, Ameríku og Asíu um allt að þriðjung og gert þeim kleift að forðast áður óumflýjanlega og dýrkeypta flöskuhálsa á leið sinni um heimshöfin. 

Keppendur kynntir til leiks

Líkt og ýjað var að í upphafi greinarinnar eru Bandaríkjamenn og Kínverjar helstu þátttakendur kapphlaupsins. Þrátt fyrir að aðrar þjóðir eyði töluverðum fjármunum í að taka þátt, jafnast það ekkert á við viðleitni eða getu hinna fyrrnefndu við að hasla sér völl á svæðinu, hvort heldur í gegnum fjárfestingar í allskyns innviðum, rannsóknarsamvinnu eða gegnum vinaleg samskipti við þarlend stjórnvöld og áhrifamenn. Og um það snýst kapphlaupið -  að verða það sem kallast í grein þessari heimskautastórveldi, þ.e. að komast til slíkra valda að unnt sé að hafa áhrif á ákvarðanatöku á norðurslóðum og heimskautasvæðinu þegar til hennar kemur og geta nýtt sér þær auðlindir sem þar fyrirfinnast.

Getty
Bandaríkjamenn komu sér þægilega fyrir á norðurslóðum á tímum kalda stríðsins og hafa síðan þá verið talin heimskautastórveldi. Þegar kalda stríðið leið undir lok hófu Bandaríkjamenn þó að beina sjónum sínum annað. Þessi áherslubreyting hafði í för með sér að á norðurslóðum myndaðist ákveðið valdatómarúm - tómarúm sem hið nýja stórveldi í austri horfir nú hýru auga til. Á árunum 2005-2015 fóru Kínverjar frá því að vera tiltölulega smár keppandi á norðurslóðum í að nálgast þá stærstu. Á meðan flestir aðrir keppendur drógu saman seglin í kjölfar efnahagskrísunnar árið 2008, gátu Kínverjar aukið fjárframlög til hinna ýmsu verkefna tengdum svæðinu og styrkt stöðu sína, en í þessari fjárhagslegu getu liggur helst styrkur þeirra. Það hefur hins vegar reynst þeim erfitt að komast í valdastöður innan hinna ýmsu stofnana sem láta sig málefni norðurslóða varða, enda voru Kínverjar ekki hluti af stofnun þeirra og hafa ekki beint landfræðilegra hagsmuna að gæta.



Mismunandi nálgun

Allt til janúar 2018 höfðu Kínverjar enga yfirlýsta stefnu í málefnum norðurslóða. Það ber þó ekki að skilja svo að hún hafi ekki verið til fyrr en þá - hún var einfaldlega ekki opinber. Í bók sinni China as a Polar Great Power, heldur fræðikonan Anne-Marie Brady því fram að þar sem Kínverjar eigi ekki nokkurt augljóst tilkall til svæðisins, hafi verið þeim verulega mikilvægt að stjórna umræðunni til að gæta þess að þær þjóðir sem ættu raunverulegt tilkall litu Kína jákvæðum augum. Þetta var hægara sagt en gert og mistókst oft, t.d. þegar kínverska auðkýfingnum Huang Nubo var neitað um að kaupa landsvæði á Íslandi til hóteluppbyggingar. 

Sem dæmi um tilraunir Kínverja til að stýra umræðunni má nefna að í umfjöllun kínverska dagblaðsins China Daily um ræðu Xi Jinping, sem haldin var á kínversku í Ástralíu árið 2014, kom fram að Kína hefði hug á að stunda rannsóknir á Suðurskautslandinu til að kanna (explore) landsvæðið. Hin raunverulega þýðing var hins vegar á þann veg að Kína hefði hug á að hagnýta (exploit) svæðið. Dagblaðið, sem erlendir fjölmiðlar nýta sér oft til að öðlast innsýn inn í kínversk málefni, gerði sér grein fyrir að slík orðræða gæti komið sér illa yrði hún opinber. Því höfðu þeir kynnst áður, eins og þegar yfirlýsing Yin Zhuo, talsmanns PLA (kínverska hersins), lenti í alþjóðlegum fjölmiðlum árið 2010. Yfirlýsingin var á þann veg að heimsskautasvæðin væru hluti sameiginlegrar arfleifðar mannkyns. Kínverjar væru u.þ.b. 20% mannkyns og ættu því tilkall til 20% þeirra hagsmuna eða auðlinda sem fyrirfyndust á svæðinu. Áhugaverð nálgun, svo ekki sé meira sagt, og töluvert herskárri en sú sem haldið var á lofti svo árum skipti. 

Líkt og fyrr sagði, gáfu Kínverjar út yfirlýsta stefnu um tilætlanir sínar á norðurslóðum í ársbyrjun 2018. Yfirlýsingin olli töluverðu fjaðrafoki, en í henni kom m.a. fram (þó ekki í fyrsta skipti) að Kína væri nærri-norðurslóðaþjóð (Near-Arctic State). Lýsing sem kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að nyrsti hluti Kína er jafn nálægur svæðinu og Berlín. Í yfirlýsingunni var einnig staðfest að hinar mögulegu nýju siglingarleiðir um Atlantshafið væru hluti af Ísilagða Silkiveginum (Ice Silk Road) og risastórri samgönguáætlun Kína, Belti og Braut.

Getty

Að bjóða upp í dans

Samskipti milli kínverskra og íslenskra stjórnvalda eru talin nokkuð góð almennt séð. Í október 2018 opnaði t.a.m. kínversk-íslenska norðurljósastofnunin (CIAO) rannsóknarstöð, en hún er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana og er „miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi”. Tilætlanir Kínverja hafa ekki farið framhjá Bandaríkjamönnum sem hafa reynt að endurvekja og styrkja umráð sín á norðurslóðunum. Í sumar var greint frá því að Bandaríkjaher muni verja 7 milljörðum króna í uppbyggingu í Keflavík á næstu árum. Þá kom varaforsetinn, Mike Pence, í opinbera heimsókn hingað til lands í september síðastliðnum þar sem hann lét þau ummæli falla að Bandaríkin væru þakklát þeirri afstöðu Íslendinga að hafna innviðafjárfestingum Kínverja hérlendis. Óvarleg ummæli svo ekki sé meira sagt, enda staðfesti utanríkisráðherra samdægurs að Íslendingar væru alls ekki búnir að hafna fjárfestingunum, þó þær hefðu ekki verið samþykktar heldur.

Grænlendingar hafa svipaða sögu að segja. Þegar ráðamenn í Washington fréttu að Kínverjar myndu mögulega veita lán fyrir, og sjá um, uppbyggingu tveggja flugvalla í Grænlandi, brugðust þeir hratt við. Samkvæmt Wall Street Journal fólust áhyggjur Bandaríkjamanna í að Grænlendingar gætu átt erfitt með að greiða lánið og að kínversk stjórnvöld myndu mögulega taka yfir flugbrautirnar og nota undir herflugvélar. Bandaríkjamenn settu sig í samband við dönsk stjórnvöld og á endanum samþykktu Grænlendingar lán frá Danmörku til uppbyggingar flugvallanna. Grænlendingar, líkt og aðrar þjóðir á norðurslóðum, þurfa vissulega að stíga varlega til jarðar en ljóst er að það eru tækifæri fólgin í þessum nýju vinsældum. Ekki síst þegar þau tækifæri gætu skapað grundvöll fyrir langþráðu og fullu sjálfstæði.



Að lokum

Norðurslóðirnar munu gegna verulega þýðingarmiklu hlutverki á komandi árum, ekki síst hvað varðar hnattrænt öryggi. Þar finnast auðlindir sem eiga sér hvergi hliðstæðu í heiminum í dag, hvort sem um er að ræða fæðu-, vatns- eða orkuauðlindir, svo ekki sé minnst á samgöngumöguleika og hernaðarlega staðsetningu. Íslendingar, líkt og aðrar hlutaðeigandi þjóðir, verða að vera fullmeðvitaðir um kapphlaupið sem er að eiga sér stað. Kapphlaupið er löngu hafið og hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá verðum við hluti af því á einn eða annan hátt.  Við þurfum að gera okkur grein fyrir hverjir eru að bjóða okkur upp í dans og fyrir virði þeirra viðskiptahagsmuna sem eru í húfi, bæði fyrir samningsaðila okkar og íslensku þjóðina í heild sinni á komandi áratugum.

Höfundur er lögfræðingur og stundar framhaldsnám í alþjóðlegri viðskiptalögfræði við Stanford háskóla.

Þessi grein er birt í samstarfi við RómRómur er vettvangur fyrir ungt frjálslynt fólk til þess að láta að sér kveða í samfélagsumræðunni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×