Innlent

Boða til mótmæla gegn „Klaustursþingmönnum“ á Austurvelli

Kjartan Kjartansson skrifar
Ummæli þingmannanna á Klaustri í garð stjórnmálakvenna voru sérlega gróf.
Ummæli þingmannanna á Klaustri í garð stjórnmálakvenna voru sérlega gróf. Vísir/Vilhelm
Hópur sem kallar sig „Takk Bára“ hefur boðað til mótmæla gegn þingmönnum sem heyrðust hafa uppi gróf og óviðeigandi ummæli um stjórnmálakonur á hljóðupptökum á barnum Klaustri á sunnudag. Einn forsvarsmanna hópsins segist algerlega misboðið yfir framgöngu þingmannanna.

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins sem höfðu sig mest frammi á Klaustursupptökunum svonefndu, sneru aftur á þing í vikunni eftir að hafa tekið sér launalaust leyfi eftir að ummæli þeirra ollu almennri hneykslan í lok nóvember.

„Takk Bára“ hefur nú boðað til mótmæla gegn þingmönnunum sem heyrðust á upptökunni á Austurvelli klukkan 14 á sunnudag. Hópurinn var stofnaður af vinum Báru Halldórsdóttir, sem tók ummæli þingmannanna upp, vegna aðgerða þingmannanna gegn henni í fyrra.

Í samtali við Vísi segir Sindri Viborg, einn stofnenda hópsins, að framganga þingmannanna sem hefur birst í blöðum og greinum undanfarna daga sem og endurkoma þeirra á þing misbjóði þeim. Segir hann þingmennina ætlast til þess að vera taldir fórnarlömb í málinu.

„Þetta er bara með ljótustu tuddahegðun sem maður hefur séð á síðari árum og okkur er bara algerlega misboðið,“ segir Sindri.

Ekki er gerð krafa um afsögn þingmannanna í boðunum á mótmælin á Facebook en Sindri segist gera ráð fyrir því að það sé krafa margra sem mæti á þau.

„Okkur finnst eðlilegt að þeir víki. Það er ekkert eðlilegt í framgöngu þeirra í þessu máli alveg frá því í lok nóvember,“ segir Sindri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×