Körfubolti

Þrenna númer 119 hjá Westbrook og Steph Curry sjóðheitur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Getty/Harry How
Russell Westbrook bætti við fimmtándu þrennu sinni á tímabilinu í nótt í sigri Oklahoma City Thunder og Stephen Curry átti flottan leik í níunda sigurleik Golden State Warriors í röð. LeBron James missti af fimmtánda leiknum í röð og Los Angeles Lakers tapaði.





Stephen Curry skoraði 38 stig og Kevin Durant var með 21 stig þegar Golden State Warriors vann 126-118 útisigur á Washington Wizards. Curry hitti reyndar aðeins úr 2 af 8 þriggja stiga skotum sínum en setti niður 12 af 16 skotum innan hennar.  „Ég tek bara það sem vörnin býður mér,“ sagði Steph eftir leikinn.

DeMarcus Cousins er kominn af stað hjá Golden State og hann skoraði 17 stig á 24 mínútum í sínum þriðja leik með félaginu. Trevor Ariza var atkvæðamestur hjá Wizards með 27 stig og Bradley Beal skoraði 22 stig.





Russell Westbrook bauð upp á þrennu þegar lið hans Oklahoma City Thunder vann 122-116 sigur á New Orleans Pelicans. Westbrook endaði með 23 stig, 17 fráköst og 16 stoðsendingar.

Þetta var fimmtánda þrenna hans á tímabilinu og 119. þrennan hans á NBA-ferlinum. Thunder hefur unnið 10 af 15 leikjum í vetur þar sem Russell hefur náð þrennunni.

Paul George bætti við 23 stigum og 11 fráköstum og tröllið Steven Adams var með 20 stig og 13 fráköst í þessum fjórða sigurleik Thunder-liðsins í röð.





Karl-Anthony Towns skoraði 27 stig og tók 12 fráköst þegar Minnesota Timberwolves vann Los Angeles Lakers 120-105 á útivelli. Andrew Wiggins bætti við 23 stigum og Jerryd Bayless  var með 16 stig í þriðja sigri Úlfanna í röð.

Rajon Rondo bauð upp á 15 stig og 13 stoðsendingar hjá Lakers-liðinu í fyrsta leik sínum síðan á jólunum og Brandon Ingram skoraði 20 stig. LeBron James missti af sínum fimmtánda leik í röð og Lakers hefur aðeins unnið fimm þeirra. Þetta var þriðja tap liðsins í röð.





Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Los Angeles Lakers - Minnesota Timberwolves    105-120    

Phoenix Suns - Portland Trail Blazers    106-120    

Oklahoma City Thunder - New Orleans Pelicans    122-116    

Washington Wizards - Golden State Warriors    118-126    

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×