Óskað hefur verið eftir aðstoð áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna leitar að göngumanni í Heydölum á Snæfellsnesi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.
Þyrlan TF-GRO mun taka á loft frá Reykjavíkurflugvelli í birtingu og halda út á Snæfellsnes til að aðstoða við leitina. GSM miðunarbúnaður verður hafður með í för.
Í samtali Vísis við Davíð Má Bjarnason, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, kom einnig fram að leit væri hafin á ný, en leit var hætt klukkan tvö í nótt.
Lögreglan mun nú notast við sporhunda við leitina. Um 300 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum í gær og nótt, en fyrsta tilkynning um að maðurinn væri týndur barst á sjöunda tímanum í gærkvöldi og voru fyrstu björgunarsveitarmenn komnir á vettvang um klukkan sjö.
Davíð Már segir áætlun um leitin liggja fyrir eftir stöðufund björgunaraðila nú í hádeginu. Haldið verði áfram þar sem frá var horfið í gær, en leitin verði þó með einhverju minna sniði.
Ákvörðun um framhaldið verði síðan tekin að verkefnum dagsins loknum.