Erlent

„Heilagur andi“ bjargaði ökumanni frá hraðasekt

Andri Eysteinsson skrifar
Hér sést dúfan og bíllinn en ekki andlit ökumannsins og það skipti sköpum.
Hér sést dúfan og bíllinn en ekki andlit ökumannsins og það skipti sköpum. Lögreglan í Viersen
Þýskum ökumanni á hraðferð var á dögunum bjargað frá 15.000 króna hraðasekt þegar að snjóhvít dúfa flaug fyrir hraðamyndavél í þann mund sem smellt var af. BBC greinir frá.

Samkvæmt lögregluembættinu í Viersen í vesturhluta Þýskalands var ökumaðurinn á 54 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 30 km/h. Hraðamyndavélin smellti eins og áður segir af en sökum dúfunnar var eingöngu hægt að bera kennsl á bílinn en ekki ökumanninn.

Í tilkynningu lögreglunnar sagði að mögulega hafi ekki um tilviljun verið að ræða „Mögulega er ekki tilviljun að holdgervingur hins heilaga anda hafi skorist í leikinn, sagði í tilkynningunni og var þar vísað í dúfuna sem oft er notuð sem táknmynd Guðs í kristni.

Þar sem ekki reyndist unnt að bera kennsl á ökumanninn var málið látið niður falla „þökk sé verndardúfunni.“ Lögreglan sagði einnig að í raun ætti að sekta dúfuna fyrir framferðið en þar sem að styttist í Hvítasunnudag sleppur hún með skrekkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×