Myndin hér að ofan sýnir hvernig alþjóðaflugvöllur gæti litið út í Hvassahrauni, rétt í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Vegalengdin úr miðborg Reykjavíkur yrði aðeins um tuttugu kílómetrar í stað um fimmtíu kílómetra til Keflavíkur.
Myndin er úr skýrslu Goldberg Partners International, sem birt er sem viðauki með skýrslu stýrihóps samgönguráðuneytis um flugvallakosti suðvestanlands en það var Icelandair sem fékk Goldberg ráðgjafafyrirtækið upphaflega að málinu.
Flugstöðin á myndinni er hönnuð í samstarfi Icelandair og Goldberg til að henta þörfum tengiflugs betur en hægt er á Keflavíkurflugvelli. Flugbrautirnar eru sýndar í brautarstefnu miðað við þær niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr veðurfarsrannsóknum, meðal annars með raunverulegu aðflugi á Boeing 757-þotu.

„Aðalkosturinn er sá að vera með flugið, bæði innanlands- og millilandaflugið, á einum stað nálægt höfuðborgarsvæðinu. Það er náttúrlega langstærsti kosturinn í þessu, - ef að niðurstaðan er sú að Hvassahraunið hentar vel fyrir flugrekstur vegna veðurs og þessháttar. Sú niðurstaða liggur ekki alveg fyrir á þessu stigi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Og það er áframhaldandi þörf á uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli næstu árin og þar af leiðandi er þetta mjög flókið viðfangsefni. Það er mjög erfitt að taka ákvörðun um að fara að fjárfesta í glænýjum velli meðan við erum að fjárfesta í öðrum velli samhliða. Þannig að við þurfum að bera virðingu fyrir því að þetta er flókið viðfangsefni.
En við höfum sagt það samt sem áður að við Íslendingar eigum að horfa til langs tíma í svona stórum ákvörðunum. Og það er okkar afstaða að til langs tíma eigi að horfa til þess að hafa millilanda- og innanlandsflugvöllinn á sama stað. Við teljum að það sé hagkvæmt til lengri tíma fyrir hagkerfið og ferðaþjónustuna,“ segir forstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: