Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Njarðvík 85-72 | Haukar skelltu toppliðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/bára
Haukar gerðu sér lítið fyrir og lögðu topplið Domino‘s deildar karla, Njarðvík, á heimavelli sínum á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Haukar unnu 85-72 sigur, þeirra þriðja deildarsigur í röð.

Haukar byrjuðu leikinn betur en leikurinn byrjaði mjög hægt og var sóknarleikur liðanna ekki upp á marga fiska í upphafi. Bæði lið fóru þó að hitta betur þegar leið á leikinn og var fyrsti leikhlutinn mjög jafn. Snemma í öðrum leikhluta var eins og það hefði lokast fyrir körfuna hjá Njarðvík, gestirnir náðu ekki að skora í um þrjár mínútur.

Á þeim tíma byggðu heimamenn upp forskot, en það náði ekki að verða meira en níu stig. Þegar Njarðvík komst aftur í gang voru þeir grænu þó ekki lengi að saxa á forskotið og Elvar Már Friðriksson kom þeim yfir á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var þó 40-39 fyrir Hauka.

Áfram var jafnt með liðunum í þriðja leikhluta, Njarðvíkingar þó skrefinu framar fyrstu mínúturnar. Haukar tóku þá annað áhlaup og fóru með fimm stiga forskot inn í síðasta leikhlutann. Þar keyrðu heimamenn yfir Njarðvík, það gekk ekkert hjá gestunum á meðan heimamenn börðust virkilega vel og uppskáru verðskuldaðan þrettán stiga sigur.

Af hverju unnu Haukar?

Eftir jafnan leik áttu heimamenn gott áhlaup undir lokin sem skilaði sigrinum. Í heildina á litið var nokkuð jafnt með liðunum en það voru þó hvítir heimamenn sem leiddu leikinn mun oftar og áttu því sigurinn líklega skilinn.

Njarðvík var ekki að spila neitt sérstaklega vel en það verður þó ekki tekið af Haukum að þeir börðust virkilega vel fyrir sigrinum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hilmar Smári Henningsson var mjög sterkur undir lokin fyrir Hauka. Hann spilaði mjög vel í kvöld en hann setti tvo mikilvæga þrista í röð þegar Haukar voru að vinna upp forskot sitt sem þeir héldu svo út leikinn. Russell Woods var frábær undir körfunni hjá Haukum og var þeirra langstigahæsti maður þar til Hilmar Smári vann á undir lokin.

Í liði gestanna bar Elvar Már Friðriksson höfuð og herðar yfir aðra. Hann var alltaf sá sem keyrði stigaskorið aftur í gang eftir lægðir Njarðvíkinga og hélt þeim á floti í leiknum.

Hvað gekk illa?

Njarðvíkingum gekk mjög illa að koma boltanum ofan í körfuna á köflum í leiknum. Bæði í upphafi og í byrjun seinni hálfleiks var mjög hægt á stigaskorun hjá báðum liðum en það var þó áberandi á köflum hversu erfitt það virtist fyrir Njarðvík að hitta úr að því virtust einföldum skotum.

Haukar eru með 15 tapaða bolta, nærri helmingi fleiri en Njarðvík, sem er heldur mikið. Þar af var alveg þó nokkuð um klaufalega tapaða bolta og oft á tíðum fóru sóknirnar heldur illa í súginn hjá báðum liðum.

Hvað gerist næst?

Það er mjög stutt í næstu leiki, næsta umferð fer af stað á sunnudaginn en þessi lið eiga þó bæði leik á mánudag. Njarðvíkingar eiga erfitt verkefni fyrir höndum, þeir sækja fimmfalda Íslandsmeistara KR heim í DHL höllina í Vesturbænum. Haukar fara í Borgarnes og sækja Skallagrím heim.

 

Ívar messar yfir sínum mönnum.vísir/bara
Ívar: Allir ákveðnir að vinna þennan leik

„Baráttan og viljinn skiluðu þessu, og stemningin,“ sagði kampakátur Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka í leikslok.

„Við erum ekki að keppa á móti neinu slorliði og við vissum það að við þyrftum að eiga toppleik á báðum endum vallarins til þess að eiga möguleika á sigri. Það var bara frábært að sjá trúna hjá strákunum, meira að segja eftir að Hjálmar datt út ælandi í fyrri hálfleik, það breytti engu. Það voru allir ákveðnir í að vinna þennan leik.“

Hilmar Smári var kominn með fjórar villur í þriðja leikhluta leiksins en Ívar hélt honum þó ekki á bekknum og átti það heldur betur eftir að borga sig því hann setti mikilvægar þriggja stiga körfur undir lokin.

„Við töluðum um það að setja hann fljótt inn á, það er betra að hann fái fimm villur heldur en að hann nýti þær ekki. Ég held að það sé ekkert gott að láta hann sitja bara, hann er það góður og hann er klár þó hann sé ungur.“

„Við sögðum við hann að ef hann fær fimmtu villuna þá fær hann hana bara, hann þurfti ekkert að vera að hugsa um það.“

„Við vorum með Hauk á bekknum, Haukur er búinn að vera veikur alla vikuna og ætli það sé ekki honum að kenna að Hjálmar er veikur núna.“

Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur.vísir/ernir
Logi: Bárum ekki virðingu fyrir þeim í upphafi

„Við áttum bara skilið að tapa í dag,“ sagði Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur. „Haukarnir voru miklu áræðnari allan leikinn og þetta er í rauninni óútskýranlegt.“

„Við eigum tækifæri á því að taka fjögurra stiga forskot á toppnum en látum þetta líta út eins og þetta sé ekki mikilvægur leikur. Það er bara galið. Við áttum bara hræðilegan dag í dag og Haukarnir voru mjög flottir.“

Var það hugarfar leikmanna sem fór með leikinn fyrir Njarðvík? „Nei, við töpuðum síðasta leik og vissum hvað þetta væri mikilvægur leikur.“

„En góð lið lenda í lægðum og það fer svolítið eftir því hversu sterkur þú ert á svellinu hvernig þú höndlar svona lægðir. Við þurfum að taka verulega til hjá okkur eftir þessi tvö töp, það er ekki búið að gerast áður í vetur að við töpum tvisvar í röð og núna sést úr hverju við erum gerðir.“

Njarðvíkingar hafa virst óstöðvandi og stefndu hraðbyr að deildarmeistaratitlinum, en þurfa stuðningsmennirnir að fara að hafa áhyggjur?

„Nei, ég vona ekki. Þetta liggur allt hjá okkur sjálfum, hvernig við förum fram og virðum leikinn. Það eru góðir strákar í öllum liðum og mér fannst við ekki virða það í byrjun leiks. Svo komust þeir á bragðið og við vorum bara lélegir í dag, þá tapar maður.“

„Það er leikur á mánudaginn á móti KR og við þurfum að spila aðeins betur en þetta ef við ætlum ekki að tapa þremur í röð.“

Hilmar Smári Henningsson.Vísir/Bára
Hilmar: Það voru mistök að gefa mér fjórðu villuna

„Það að við héldum okkur inni í leiknum allan tímann. Við byrjuðum vel og létum aldrei neitt slökkva á okkur,“ sagði Hilmar Smári Henningsson aðspurður hvað hafi skilað sigrinum fyrir Hauka í kvöld.

„Við vorum allan tímann með þá, leyfðum þeim ekki að ná sínum hraða, héldum þessu í rólegum leik og stemningin var geggjuð okkar megin.“

Hilmar sagði fjórðu villuna sem hann fékk hafa kveikt í sér og var ánægður með að hafa ekki þurft að dúsa lengi á bekknum eftir hana.

„Ég hélt hann myndi kippa mér út af strax eftir fjórðu, en hann hélt mér inn á pirruðum svo það voru bara mistök að hafa gefið mér fjórðu villuna, hún bara kveikti í mér.“

Haukar hafa unnið þrjá leiki í röð eftir nokkuð erfitt tímabil framan af vetri og fara fullir sjálfstrausts í Borgarnes á mánudaginn.

„Við fórum í gegnum þessa lélegu leiki og komum brjálaðir til baka. Við heyrðum alla tala um að við áttum ekki neitt eftir svo við vorum alveg pressulausir. Við settum þá bara pressu á sjálfa okkur að gera miklu betur.“

„Við ætlum bara að halda áfram að vinna leiki.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira