Viðskipti innlent

Icelandair Cargo semur við FedEx og TNT

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvél Icelandair Cargo.
Flugvél Icelandair Cargo.

Icelandair Cargo hefur gert samning við FedEx og TNT um flutninga á öllum þeirra vörum til og frá Íslandi. Samningurinn, sem er til þriggja ára, tekur gildi í byrjun árs 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Í tilkynningu segir að FedEx og TNT hafi sameinað starfsemi sína eftir kaup FedEx á TNT og stefni að því að auka umsvif sín hér á landi í samstarfi við Icelandair Cargo. FedEx er sem kunnugt er eitt af stærstu flutningafyrirtækjum í heimi, með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.Icelandair

Vegna samningsins verður nokkur breyting á flugáætlun Icelandair Cargo til Evrópu. Flug til Liege í Belgíu mun aukast verulega í ljósi þess að Liege er einn af aðalflugvöllum FedEx og TNT í Evrópu. Fraktvélar Icelandair Cargo munu fljúga sjö sinnum í viku til Liege í Belgíu og þrisvar sinnum í viku til East Midlands í Bretlandi. Þá býður félagið eftir sem áður upp á fraktþjónustu til allra áfangastaða Icelandair sem eru um 40 talsins.

Haft er eftir Gunnari Má Sigurfinnssyni, framkvæmdastjóra Icelandair Cargo, að samningurinn við FedEx og TNT sé einn sá stærsti sem Icelandair Cargo hafi gert.

„Aukið framboð á fraktþjónustu til meginlands Evrópu felur í sér aukin tækifæri fyrir viðskiptavini Icelandair Cargo, t.d. íslenska útflytjendur á sjávarafurðum. Þeirra markmið er að koma vörum sínum ferskum á markað í Evrópu með skjótum og öruggum hætti. Með yfirvofandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu felast tækifæri í því að auka flug til meginlands Evrópu, þar sem stór hluti af þeim sjávarafurðum sem flogið var til Bretlands fór samdægurs áfram til meginlands Evrópu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×