Körfubolti

Milka er +130 í tíu leikjum í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominykas Milka.
Dominykas Milka. Vísir/Daníel

Keflvíkingar voru næstum því tvö hundruð stigum slakari þegar Dominykas Milka var á bekknum í fyrri umferð Domino´s deildar karla í körfubolta.

Dominykas Milka átti stórbrotin leik með Keflavíkurliðinu í gær þegar liðið vann 23 stiga sigur á ÍR í 11. umferðinni. Keflavík hélt því öðru sæti deildarinnar og verður þar yfir jólin.

Milka endaði leikinn í gær með glæsilega þrennu, skoraði 16 stig, tók 14 fráköst og gaf 14 stoðsendingar. Hann fékk fyrir þetta 37 framlagsstig og það sem meira er að Keflavík vann með 37 stigum þær rúmu 34 mínútur sem hann spilaði.

Dominykas Milka hefur spilað í rúmar 344 mínútur með Keflavík í deildinni í vetur og þær hefur Keflavíkurliðið unnið með 130 stigum. Keflavík er því að vinna með þrettán stigum að meðaltali þegar hann er inn á vellinum.

Milka tók út bann í einum leik sem var á móti Haukum en í honum skoraði Keflavíkurliðið bara 70 stig samtals og tapaði með sextán stigum.

Keflavíkurliðið hefur leikið tæpar 96 mínútur án Dominykas Milka í vetur og þeim hluta leikjanna hefur liðið tapað með 63 stigum.

Það er því 193 stiga sveifla hvort Dominykas Milka er inn á eða útaf vellinum. Það er rosalegur munur.

Keflavík er líka í mínus þegar tveir aðrir leikmenn eru á bekknum en það eru þeir Hörður Axel Vilhjálmsson og Khalil Ullah Ahmad.

Keflavíkurliðið í fyrri umferð Dominos deildar karla 2019-20:

Dominykas Milka inn á vellinum

Keflavík að vinna með 130 stigum

Dominykas Milka ekki á vellinum

Keflavík að tapa með 63 stigum



Sveiflurnar hjá lykilleikmönnum Keflavíkur í vetur

Dominykas Milka - Inná: +130 - Útaf: -63

Hörður Axel Vilhjálmsson - Inná: +90 - Útaf: -23

Khalil Ullah Ahmad - Inná: +82 - Útaf: -15

Deane Williams     - Inná: +55 - Útaf: +12

Guðmundur Jónsson     - Inná: +34 - Útaf: +33

Ágúst Orrason      - Inná: +28  - Útaf: +39

Magnús Már Traustason - Inná: +18 - Útaf: +49

Reggie Dupree - Inná: +15  - Útaf: +52




Fleiri fréttir

Sjá meira


×