Skoðun

Svikin lof­orð eða ó­þolandi seina­gangur?

Sandra Bryndísardóttir Franks skrifar

Í sérstakri yfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í maí 2015 var aðgerðum um menntamál lofað. Aðgerðirnar snérust um að bæta skilyrði til starfsnáms. Skilgreina átti fagháskólastigið og tengingu þess við framhalds- og háskólakerfið. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur eðli samkvæmt verið með verkefnið á sínum snærum og skipað starfshóp og samráðsvettvang til þess að koma þessu verkefni til framkvæmdar. Senn er árið 2020 að hefjast og ég spyr, hvað er að frétta?   

Sjúkraliðafélag Íslands hefur um árabil lagt áherslu á að fjölga sjúkraliðum og efla stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Einn þáttur í því er að styrkja og bæta sjúkraliðanámið með viðbótarnámi sem kennt verður á fagháskólastigi. Þannig verður betur hægt að tryggja samfellda námsleið fyrir nemendur úr framhaldsskóla yfir í háskóla og styðja faglegar forsendur námsins.

Sjúkraliðar höfðu til ársins 2017 tækifæri til að stunda framhaldsnám á 4. hæfniþrepi við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Námið styrkti sérhæfingu sjúkraliða til að takast að við fjölþættari hjúkrunarstörf. Á þessu tímabili sem unnið hefur verið að því að skilgreina fagháskólanám, í samræmi við framangreint loforð ríkisstjórnarinnar, hefur framhaldsnám sjúkraliða við Fjölbrautaskólann i Ármúla legið niðri. Það hefur því myndast uppsöfnuð eftirspurn eftir náminu, og er það verulegt áhyggjuefni.

Það er beinlínis nauðsynlegt að lögformleg loforð ríkisstjórna séu sett fram með ábyrgum og markvissum hætti, og að áætlun um framkvæmd og fjármuni séu tryggð. Í störfum okkar á skrifstofu Sjúkraliðafélagsins fer allnokkur orka í að svara fyrirspurnum sjúkraliða um væntanlegt fagháskólanám. Það er ömurlegt hlutskipti að þurfa færa þessari lykilstarfsstétt í heilbrigðisþjónustunni ítrekuð vonbrigði með því að segja að ekkert sé að frétta af þessu fyrirhugaðri námsleið.

Mennta- og menningarmálaráðherra þarf að bregðist hratt og vel við framangreindu loforði ríkisstjórnarinnar frá árinu 2015, því það er ekki valkostur að fresta viðbótarnámi fyrir sjúkraliða enn frekar.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×