Íslenski boltinn

Óskar Örn sá næstelsti sem hefur verið valinn bestur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar lék alla 22 leiki KR í Pepsi Max-deildinni í sumar og skoraði sjö mörk.
Óskar lék alla 22 leiki KR í Pepsi Max-deildinni í sumar og skoraði sjö mörk. vísir/bára
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, er sá næstelsti sem hefur verið valinn besti leikmaður ársins í efstu deild á Íslandi.

Óskar var útnefndur besti leikmaður Pepsi Max-deildar karla á lokahófi Pepsi Max-deildanna á sunnudaginn. 

Óskar er fæddur 22. ágúst 1984 og er því 35 ára. Eyjamaðurinn Hlynur Stefánsson var 36 ára þegar hann var valinn besti leikmaður efstu deildar 2000 en hann er eini handhafi þessara verðlauna sem hefur verið eldri en Óskar. Byrjað var að veita þessi verðlaun 1984.

Líkt og Óskar var Heimir Guðjónsson 35 ára þegar hann var valinn besti leikmaður efstu deildar 2004. Þá var Heimir fyrirliði Íslandsmeistara FH.

Luca Kostic var 34 ára þegar hann var valinn bestur 1992. Hann var þá fyrirliði ÍA sem varð Íslandsmeistari sem nýliði.

Þeir elstu sem hafa verið valdir besti leikmaður efstu deildar:

36 ára - Hlynur Stefánsson (2000)

35 ára - Óskar Örn Hauksson (2019)

35 ára - Heimir Guðjónsson (2004)

34 ára - Luca Kostic (1992)

33 ára - Helgi Sigurðsson (2007)

32 ára - David Winnie (1998)

32 ára - Sævar Jónsson (1990)

31 árs - Gunnar Oddsson (1996)

Hlynur Stefánsson var 36 ára þegar hann var valinn besti leikmaður efstu deildar fyrir 19 árum.mynd/brynjar gauti

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×