Innlent

Mikil aukning á árinu í sjálfs­vígs­sím­tölum

Björn Þorfinnsson skrifar
Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparlínu.
Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparlínu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Um 30 prósent fleiri sjálfs­vígs­sím­töl hafa borist í Hjálpar­síma Rauða krossins það sem af er ári miðað við sama tíma­bil 2018. Sam­tökin hafa í sam­starfi við Geð­hjálp sett í gang her­ferð til þess að upp­fræða ung­menni um geð­heilsu.

Rauði krossinn hefur um ára­bil starf­rækt Hjálpar­síma þar sem ein­staklingar geta hringt inn eða sent skila­boð á netinu um ýmis vanda­mál. Úr­ræðið er opið allan sólar­hringinn, alla daga ársins. Sjálf­boða­liðar manna vaktirnar á daginn og kvöldin en nætur­vaktirnar eru launaðar.

„Við erum með um 90 til 100 sjálf­boða­liða sem manna vaktirnar. Þörfin er ærin því okkur berast um fjór­tán þúsund sím­töl og skila­boð á ári. Við tökum á öllum vanda­málum fólks en flest þeirra eru þó sál­ræns eðlis. Þung­lyndi, kvíði og ein­mana­leiki,“ segir Sandra Björk Birgis­dóttir, verk­efna­stjóri Hjálpar­síma Rauða krossins.

Sam­kvæmt skráningu Hjálpar­símans hafa það sem af er ári borist 717 sam­töl frá ein­stak­lingum í sjálfs­vígs­hug­leiðingum. Fjöldinn var 553 á sama tíma í fyrra og því er aukningin um 30 prósent.

„Það þarf ekki að þýða að það séu fleiri í sjálfs­vígs­hug­leiðingum en áður, heldur að það séu fleiri sem leita sér hjálpar og þora að tala um það þegar þeim líður illa,“ segir Sandra Björk.

Rauði krossinn og Geð­hjálp blésu í her­lúðra og hrintu for­varnar­verk­efninu Út­með’a í fram­kvæmd til að minna á hvaða þættir geta stuðlað að góðu and­legu heil­brigði. Um er að ræða tíu mynd­bönd sem eiga að hvetja fólk, með sér­stakri á­herslu á ungt fólk, til að tjá sig um and­lega líðan sína og leita sér fag­legrar að­stoðar þegar á þarf halda.

„Það má segja að við höfum upp­fært Geð­orðin tíu, sem margir þekkja, og fært þau í nú­tíma­legri búning. Þetta eru gagn­virk mynd­bönd, unnin í sam­starfi við fram­leiðslu­fyrir­tækið Tjarnar­götu, þar sem á­horf­andinn á að geta upp­lifað hvernig lífið getur breyst með því að temja sér betri venjur og hugsa vel um sjálfan sig. Þetta er í formi tíu skrefa sem öll eiga að hjálpa til við að stuðla að betri geð­heilsu,“ segir Sandra Björk.

Mynd­böndin eru að­gengi­leg á heima­síðu verk­efnisins, ut­meda.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×