Erlent

John­son kynnir nýjar Brexit-til­lögur á næstu dögum

Atli Ísleifsson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Getty
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun á næstu dögum kynna nýjar Brexit-tillögur stjórnar sinnar fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Stjórnvöld á Írlandi hafa þegar sagt nýjar tillögur Bretlandsstjórnar um tilhögun á landamærum Norður-Írlands og Írlands ekki vera grundvöll til viðræðna.

Johnson mun kynna tillögurnar að loknu flokksþingi Íhaldsflokksins sem fram fer þessa dagana.

Írski ríkisfjölmiðillinn RTE greindi frá því í gær að tillögur stjórnar Johnson feli meðal annars í sér lausn um sérstakt írskt efnahagssvæði, með tollasvæði beggja vegna landamæranna. Tollahliðin yrðu að finna nokkrum kílómetrum norðan og sunnan við landamærin.

Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, segir ekki vera hægt að taka tillögurnar alvarlega og að bæði Norður-Írland og Írland „eigi betra skilið“.

Breska blaðið Times hefur einnig greint frá því að Johnson hafi skorað á ESB að koma í veg fyrir frekari frestun á útgöngu Bretlands úr ESB.

Tilhögunin á landamæri Norður-Írlands og Írlands hefur verið helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum Bretlands og ESB um útgönguna. Er henni ætlað að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands við útgöngu Bretlands úr ESB.


Tengdar fréttir

Segir Johnson reyna að skapa óeirðir og læti

Keir Starmer, skugga- útgöngumálaráðherra, segir að Boris Johnson sé að reyna að skapa eins mikla úlfúð og læti og hægt er til þess að komast hjá því að sækja um útgöngufrest til Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×