Yfirvöld í Kína minnast þess í dag að sjötíu ár eru liðin frá því kommúnistar komust til valda í landinu og er mikið um dýrðir í höfuðborginni Beijing í dag vegna þess.
Her landsins sýnir tæki sín og tól og farið er yfir sögu landsins frá tímum Maó og til vorra daga, en í dag er Kína eitt öflugasta veldi heims en um leið oft gagnrýnt fyrir mannréttindabrot á eigin þegnum og útþennslustefnu sína, ekki síst á Suður-Kínahafi.
Öllum herlegheitunum er sjónvarpað beint til landsmanna og í tilefni dagsins ákvað ríkisstjórnin að gefa fátækustu þegnum landsins sjónvarpstæki til að þau gætu orðið vitni að sjónarspilinu. 620 þúsund flatskjám var því dreift til borgaranna á dögunum.
Mótmælin í Hong Kong skyggja þó á hátíðarhöldin en búist er við að mótmælendur í borginni, sem eru andsnúnir ofríki Kínverja, láti til skarar skríða í dag.
Fagna sjötíu ára kommúnistastjórn í dag

Tengdar fréttir

Alþýðulýðveldið Kína fagnar sjötugsafmæli á morgun
Kínverjar minntust píslarvotta byltingarinnar í dag en fagna afmælinu sjálfu á morgun.