Dortmund vann sinn annan sigur í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld þegar þeir lögðu FC Köln á útivelli. Það gengur hins vegar ekkert hjá Vincent Kompany í þjálfarastarfinu hjá Anderlecht.
Dortmund vann 5-1 stórsigur á Augsburg í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar og mættu því fullir sjálfstrausts til Kölnar í dag. Þeir lentu reyndar undir í fyrri hálfleik þegar Dominick Drexler skoraði fyrir heimamenn.
Í síðari hálfleik svöruðu þeir hins vegar með þremur mörkum. Jadon Sancho jafnaði á 70.mínútu og Achraf Hakimi kom þeim í 2-1 á 86.mínútu áður en Paco Alcacer tryggði sigurinn í uppbótartíma.
Í Belgíu voru stærstu tíðindin fyrir tímabilið að Vincent Kompany færði sig frá Englandsmeisturum Manchester City og tók við þjálfarastarfinu hjá Anderlecht. Hann leikur auk þess í hjarta varnar liðsins en óhætt er að segja að hann hafi fengið eldskírn þessar fyrstu vikur tímabilsins.
Liðið hefur enn ekki unnið leik eftir fimm umferðir og tapaði í kvöld á útivelli gegn Genk. Þetta var þriðja tap liðsins sem hefur aðeins skorað þrjú mörk í þessum fyrstu fimm leikjum.

