Innlent

Flugvallarmáli frestað í bili

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Sigurður Ingi Þórðarson var framkvæmdastjóri.
Sigurður Ingi Þórðarson var framkvæmdastjóri. Fréttablaðið/Stefán

Riftunarmál þrotabús ACE Handling ehf. gegn eignarhaldsfélögunum ACE FBO, Global Fuel Iceland og Bjargfasti var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Samkvæmt Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni þrotabúsins, var ákveðið að fresta málinu um tíma og reyna sættir.

Félögin voru öll í eigu Hilmars Ágústs Hilmarssonar, flug- og athafnamanns sem búsettur var í Sviss, en nafn hans kom við sögu þegar Panamaskjölin voru opinberuð. Sumarið 2018 fjallaði DV ítarlega um starfsemina í Skýli 1 á Reykjavíkurflugvelli þar sem félögin höfðu aðsetur.

Áður en ACE Handling ehf. varð gjaldþrota var Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri. En hann hefur hlotið dóma fyrir kynferðisbrot, eins og hinn skráði stjórnarmaðurinn, Robert Tomasz Czarny. Báðir höfðu þeir aðgang að haftasvæðum.

Í Skýli 1 á Reykjavíkurflugvelli hafði einnig trúfélagið Postulakirkjan aðstöðu, en Dan Sommer, prestur kirkjunnar, var lífvörður Sigurðar þegar hann kom fyrir allsherjarnefnd Alþingis árið 2013 vegna Wikileaks-málsins. Greint var frá því að í Skýli 1 hefði verið búið að koma fyrir kapellu og þar færu meðal annars fram skírnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×