Lífið

Youtu­be-stjarna opnar sig um kyn­hneigð sína í ein­lægu mynd­bandi

Sylvía Hall skrifar
Eugene Lee Yang á fjáröflunarsamkomu fyrir The Trevor Project.
Eugene Lee Yang á fjáröflunarsamkomu fyrir The Trevor Project. Vísir/Getty
Eugene Lee Yang opnar sig í fyrsta sinn um kynhneigð sína í nýju myndbandi en hann hefur slegið í gegn sem hluti af hópnum The Try Guys á Buzzfeed. Hópurinn gefur út þætti þar sem þeir prófa allt á milli himins og jarðar, allt frá hárvörum yfir í það að smakka allan matseðilinn á KFC.

Yang, sem er 33 ára gamall, ólst upp í Texas og er af asískum uppruna. Hann segir bakgrunn sinn hafa gert sér erfitt fyrir að horfast í augu við þá staðreynd að hann væri samkynhneigður maður. Í samtali við The Advocate segir Lee að hann hafi fljótlega gert sér grein fyrir því að hann væri í það minnsta í einhverskonar jaðarhópi.

„Ég var áður að vinna úr þeirri staðreynd að ég vissi ekki að ég væri asískur í mörg ár. Einu skilaboðin um það voru frá jafnöldrum mínum á neikvæðan hátt og það lét mig sjálfkrafa detta inn í það hugarfar að mér fannst ég öðruvísi. Öryggi mitt var aldrei eitthvað sem ég tók sem gefnum hlut,“ segir Lee.

Hann segir þá upplifun hafa litað hvernig hann horfði á kynhneigð sína því hann hafði áður horft upp á þá meðferð sem hinsegin krakkar fengu í skólanum sínum og það hafi ekki verið falleg sjón.

„Það var mikið í samfélaginu sem ýttu mér í þá átt að fara mjög varlega.“

Myndbandið gert til þess að vekja athygli á sjálfsvígum hinsegin ungmenna 

Nú eru fjórir dagar síðan myndbandið var birt á YouTube og hefur það fengið hátt í tíu milljónir áhorfa. Lee er handritshöfundur, leikstjóri og danshöfundur myndbandsins en í myndbandinu tjáir hann sig alfarið í gegnum dans við undirspil lagsins A Moment Apart.

Myndbandið heitir einfaldlega I‘m Gay og segir Lee það vera hann að tjá sig á afar persónulegan hátt. Þá er myndbandið einnig fjáröflunarverkefni fyrir The Trevor Project sem vinnur að því að fækka sjálfsvígum á meðal hinsegin ungmenna og hafa nú þegar safnast yfir 65 þúsund dollarar í þágu verkefnisins.

„Ég hélt aftur af mér vegna ótta og skammar sem kom í kjölfar bakgrunns míns en ég lofa að gefa ykkur allan minn sannleika í því sem ég geri í framtíðinni,“ segir Lee.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×