Atkvæðagreiðslu um nýgerða kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins við félög verslunarmanna og aðildarfélög Starfsgreinasambandsins lýkur klukkan 16.00 í dag. Atkvæðagreiðslu hjá VR lauk aftur á móti í síðustu viku en niðurstöður atkvæðagreiðslna hjá öllum félögum verða kynntar fyrir hádegi á morgun.
Það stefnir í dræmustu þátttöku í atkvæðagreiðsu AFLs um langt árabil en í dag er síðasta tækifærið fyrir félagsmenn til að nýta rétt sinn og segja sína skoðun á kjarasamningunum sem voru undirritaðir í byrjun mánaðar.
Þetta kemur fram á heimsíðu félagsins en félagsmenn eru hvattir til að greiða atkvæði um kjarasamningana þannig að niðurstaðan standi ekki og falli með atkvæðum fárra félagsmanna.
„Bæði það að samþykkja samninginn og að fella hann hefur afleiðingar fyrir alla þá sem á kjörskrá eru og mikilvægt að einhver samstaða ríki innan félagsins um niðurstöðuna.“
