Erlent

Íþróttafréttakona á meðal þeirra sem fórust í flugslysi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Carley McCord, íþróttafréttamaður sem lést í slysinu, sést hér til vinstri. Til hægri má sjá mynd frá vettvangi slyssins.
Carley McCord, íþróttafréttamaður sem lést í slysinu, sést hér til vinstri. Til hægri má sjá mynd frá vettvangi slyssins. Vísir/AP

Fimm fórust þegar lítil flugvél brotlenti í borginni Lafayette í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum í dag. Farþegar vélarinnar voru á leið á fótboltaleik þegar slysið varð. Íþróttafréttamaður, sem einnig var tengdadóttir eins þjálfara annars liðsins, er á meðal hinna látnu.

Vélin, sem er tveggja hreyfla og af gerðinni Piper Cheyenne, hrapaði á bílastæði við pósthús í Lafayette skömmu eftir flugtak að morgni laugardags.

Sex voru um borð í flugvélinni og þar af létust fimm. Sá sem komst lífs af var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús. Þrír voru fluttir á sjúkrahús til viðbótar, þar af tveir starfsmenn pósthússins og ökumaður bíls sem flugvélin rakst á.

Frá vettvangi slyssins í Lafayette.Vísir/AP

Carley McCord, íþróttafréttamaður og tengdadóttir Steve Ensminger, eins af þjálfurum fótboltaliðs Louisiana-ríkisháskólans, lést í slysinu. Flugvélin var á leið á leik liðsins í Atlanta þegar slysið varð.

Í frétt AP-fréttaveitunnar segir að tár hafi sést á hvarmi Ensminger þegar hann gekk inn á völlinn áður en flautað var til leiks síðdegis á laugardag.

MCCord var þrítug og starfaði hjá WDSU-sjónvarpsstöðinni í New Orleans. Forsvarsmenn stöðvarinnar minntust hennar sem hæfileikaríks fréttamanns og vottuðu fjölskyldu hennar innilega samúð. Hinir fjórir látnu voru á aldrinum 15 til 59 ára.

AP hefur eftir sjónarvottum að „gríðarmikil sprenging“ hafi heyrst þegar flugvélin brotlenti á bílastæðinu. Þá hafi flugvélin rekist á bíl við brotlendinguna og öskur hafi heyrst innan úr honum.

Hér má sjá rjúka úr flaki flugvélarinnar.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×