Viðskipti innlent

Samdráttur í launakostnaði of lítill 

Hörður Ægisson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Þótt rúmlega fjögurra prósenta samdráttur í launakostnaði Icelandair Group á fyrri árshelmingi sé „vissulega skref í rétta átt“ er hann „of lítill“ enda verði að hafa í huga að gengi krónunnar veiktist um sextán prósent á milli ára. Launakostnaður sem hlutfall af tekjum félagsins lækkaði úr 38,7 prósentum í 37,9 prósent.

Þetta kemur fram í nýju verðmati Capacent í kjölfar árshlutauppgjörs flugfélagsins 1. ágúst síðastliðinn sem Markaðurinn hefur undir höndum. Samkvæmt Capacent er verðmatsgengi Icelandair, sem gerir ekki ráð fyrir bótagreiðslum frá Boeing vegna kyrrsetningar MAX-vélanna, nú 10,6 krónur á hlut og lækkar um ellefu prósent frá fyrra verðmati. Hlutabréfaverð félagsins lækkaði um rúmlega þrjú prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í gær og stóð gengið í 7,95 við lokun markaða. Gengi bréfa Icelandair hefur lækkað um 17 prósent frá áramótum.

Greinandi Capacent segir að launaliðurinn í uppgjöri Icelandair hafi valdið vonbrigðum. „Ef samkeppni á flugmarkaði er í verðum hallar mjög á innlendan flugrekstur og um fjögur prósent hækkun launa er of mikil miðað við núverandi aðstæður. Þótt fjárhagsstaða og úthald Icelandair hafi verið meira en WOW air er það minna en margra erlendra flugfélaga,“ segir í verðmatinu.

Þá er varpað fram þeirri spurningu hvort íslenski flugbransinn hafi gert sig ósamkeppnishæfan með of háum launum. „Í forsendum er gert ráð fyrir að launahlutfallið lækki þar sem sætanýting muni aukast. Hætta er á það muni ekki verða niðurstaðan ef nýtt flugfélag verður stofnað á Ísland. Einnig er ljóst að ekkert svigrúm er til hækkunar launakostnaðar í íslenska flugbransanum nú um stundir.“

Áætlun Icelandair gerir ráð fyrir að afkoma félagsins verði neikvæð um 70 til 90 milljónir Bandaríkjadala á þessu ári ef Boeing MAX-vélarnar komast ekki í loftið. Capacent segist ekki vera sérlega bjartsýnt á að vélarnar fari í loftið og spáir því að rekstrartap flugfélagsins (EBIT) verði um 88 milljónir dala.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×